9 dagar: Besta KA lið allra tíma? - Seinni hluti

Þá er komið að seinni hlutanum og er af nógu að taka á miðjunni og framlínunni og á formaðurinn í stökustu vandræðum.

Miðjumenn.  Hér er ég nálægt uppgjöf,  mannskapurinn sem úr er að velja er einfaldlega þannig.  Þormóður Einarsson, maðurinn fann upp hækjuna sem Rónaldó og aðrir slíkir vel smurðir hafa síðan tekið upp eftir meistaranum.

Kári Árnason var liðtækur.  Hann var svo snöggur að ég sá hann einu sinni hlaupa sig úr keppnistreyju sinni (þá spilaði hann með ÍBA)  Kári var flinkur og mikil hetja.   Hann kenndi okkur leikfimi í Barnaskóla Akureyrar og ég gleymi ekki hve magnað mér þótti að sjá á honum leggina á haustin.  Leggir Kára voru  allir í rispum/sárum eftir óvægar tæklingar varnarmanna.  Kári notaði sennilega ekki legghlífar!  Kannski var ekki búið að finna þær upp þá??    

Elmar Geirsson, tannlæknir,  svo ég noti frasa sem var gríðarlega vinsæll hjá íþróttafréttariturum þess tíma, ,,boraði sig gegnum varnir andstæðinga sinna”.  Elmar var hins vegar ekki eins vinsæll hjá vallarverði einum, sem reyndar er toppmaður, en sá á það til að skrolla aðeins á errinu.  Hann heyrðist segja í kallkerfi Ak-vallar eftir að hafa lokið við að kynna lið okkar ,, Fer hann ekki að hætta þessi Elmaaghrr Geieerghson” 

Jóhann ,,Donni” Jakobsson, sem átti endalaus gullkorn og úrslitasendingar. Donni var ótrúlegur leikmaður.  Ein saga af Donna:  Hann hafði þá einu sinni sem oftar leikið varnarmann Þórs grátt, svo grátt að varnarjaxlinn lá á vellinum með andlitið ofan í grasinu.  Donni skokkar til hans og heyrðist segja ,,Ertu í maðk helvítið þitt”? 

Bjössi Gunnars. var með ótrúlega góðar spyrnur og seinasti leikmaður KA í mfl. sem ég hef séð skora beint úr hornspyrnu.  

Bjarni Jóns., vinnuhesturinn sem gaf öðrum á miðjunni tækifæri til þess að hafa minni áhyggjur af hinum ýmsu verkefnum sem þar voru fyrirliggjandi. 

Toddi Örlygss, hvað skal segja?? Frábær leikmaður! Markið gegn Fram á Laugardalsvellinum í júlí 1989: Ormarr vinnur boltann aftarlega hægra megin, leikur á einn Framara, sendir á Bjarna sem er á miðjum vallarhelmingi okkar, Bjarni leikur boltanum áfram og stingur  innfyrir vörn þeirra bláu,  þar kemur Toddi á fullkomlega tímasettu hlaupi og eitt besta mark sem skorað hefur verið í nafni KA leit dagsins ljós.


Deano væri ekki eins og álfur úr hól í þessum félagsskap, frekar en Gauti Laxdal. 

Ein saga af Deano, frá hans  fyrsta leik með okkur gegn Víkingi á malarvelli KA  (hvar við unnum marga góða sigra): Deano var  funheitur, hraði hans og ótrúlegar fyrirgjafir sköpuðu endalausa hættu.  Í einni af mörgum reglulegum áætlunarferðum hans upp kantinn mætti hann vesalings drengnum sem átti víst að stoppa hann.

  

Okkar maður, sem þá strax var herskár, kallaði á varnarmann Víkings  svo allir á vellinum heyrðu: ,, You are in my pocket”,  stakk andstæðing sinn af  einu sinni enn og sendi eitraða, dæmigerða ,,enska fyrirgjöf” að marki. Frá þeirri stundu var Deano hetja í minum augum. 

Eins og ég hefði haft gaman af því á sjá Hauk Heiðar með Erlingi, má sama segja um Andra Fannar með þessum köppum.  Hann hefði notið sín vel með þeim. Brian Gilmour væri líka fínn með þeim þessum sem og Jói Síló.

Þetta er mikil upptalning gott fólk,  nú vil ég spyrja ykkur hvernig í heiminum á að velja fjóra úr þessum hóp???  Mín skoðun er að það sé einfaldlega ekki hægt, ekki fyrir mann eins og mig sem hef bara starfað sem kranamaður í Íþróttahöll og síðar sem sölumaður!  

Velja fjóra, nei það er ekki hægt!  

Ég segi við hópinn:  Strákar fyrstur kemur, fyrstur fær. Þið hinir verðið að sitja á bekknum í dag.  Sitja því þessir snillingar allir  neita að fara útaf. 

Framherjar.  Hér er líka mannúrval.  Óskar Sigþór Ingimundarsson sem spilaði fyrir okkur 1980 og 81 og skoraði eins og að drekka vatn. Hann svitnaði ekki mikið en hann var sko mættur og ,,settann”.  Skari vann sér til frægðar að skora "hat trick" fyrir okkur þrjá leiki í röð og má ég segja að það met standi enn. Óskar var  lítt gefinn fyrir flugferðir,  þannig að þáverandi þjálfari okkar,  Alec B.Willoughby, sem var mikill sentilmaður, bauð honum að spila bara heimaleikina! Skari lét sig hafa það að fljúga en stundum ók Hrafnhildur kona hans honum heim.  Tryggvi Þór Gunnarsson, segja má það sama um hann og Skara, ekki endilega sveittur í leikslok en hver kvartar yfir manni sem skoraði, var það ekki 28 mörk í 18 leikjum??  Hinrik Þórhallsson hafði eins og Einar bróðir hans klassa yfir sér á velli og hann kemur vel til greina.


Óskar skorar hér eitt af þrem mörkum sínum gegn Haukum 1980.

Antony Karl Gregory væri eflaust nálægt þessu liði, hefði hann ekki skorað  ákv. mark fyrir Val sem ég gleymi aldrei. Get ekki gleymt þó ég reyni og reyni.  Sorry Tony, en þú situr upp í stúku.  Doddi Makan var góður spilari og skoraði þýðingarmikil mörk fyrir KA og var mun meiri leiðtogi fyrir liðið en margir gerðu sér grein fyrir.


Þorvaldur Makan er auðvitað í liðinu

Gunni Blöndal er á bekknum, dugnaður nafna míns, hraði og keppnisskap er eitthvað sem öll lið þurfa á að halda. Nafni minn var kappsfullur leikmaður og þeir sem sáu minnast þess enn með virðingu þegar hann tók hjólhestaspyrnu í Íslandsmótinu í innanhúsknattspyrnu í Laugardagshöll, staddur á miðlínu.  Kappinn  setti tuðruna upp í rjáfur en leikið var með böttum og hugsun manna var að vera frekar nettir á því.  Nafni minn er mér ógleymanlegur leikmaður. 

Læt Óskar og Dodda byrja en það er betra fyrir þá að vera á tánum því á bekknum eru menn sem væru inn á í flestum liðium. 

Þessir snillingar sem ég hef hér nefnt töpuðu ekki leik, trúi ég, ef við gætum stillt þeim upp í dag.  Bið ykkur að athuga að ég valdi aðeins þá leikmenn sem ég hef séð spila, get ekki valið aðra.  Eigum þar snillinga eins og Gógó, fyrsta landsliðsmann KA í fótbolta, Óla Klöru,  Lilla Kobba, en hann var eldri bróðir Donna, Sigga Villa, Skúla Ág., Jón Stefánsson og ,,köttinn” eða Einar Helgson, en margir af þeim eldri fullyrða að hann sé langbesti markmaður sem varið hefur mark KA.  Þessa kappa sá ég s.s ekki verja heiður okkar, get því ekki valið þá.

 

Liðið er því svona skipað: