Aðalbjörn Hannesson: Allt getur gerst í bikarnum

Alli í þjálfaragallanum.
Alli í þjálfaragallanum.
Í tilefni þess að KA og Draupnir eigast við á morgun ákváðum við að heyra aðeins í Aðalbirni Hannessyni, leikmanni Draupnis, fréttaritara KA síðunnar og fyrrum leikmanni KA.

Jæja Alli, hvernig leggst leikurinn á morgun í þig? ,,Leikurinn leggst bara mjög vel í mig, getur alltaf allt gerst í bikarnum.“

,,Það er mjög góður mórall hjá okkur, uppistaðan í seinustu leikjum hafa verið 20-23 ára strákar sem spiluðu fyrir KA á sínum yngri árum sem gefur þessum leik enn þá meira vægi fyrir okkur, “ sagði Alli um móral Draupnis en margir KA-menn eru í röðum þeirra.

Nú er Alli uppalinn KA maður. Verður það ekkert skrítið að keppa á móti gömlum vinum jafnvel?
,,Væri ekki betra að spurja KA-strákana að þessu? Í ljósi þess að ef við skoðum byrjunarlið liðanna frá seinustu leikjum þá voru fjórir uppaldir KA-menn í byrjunarliði KA en sjö til átta uppaldir KA-menn í byrjunarliði Draupnis. En að öllu gríni slepptu þá hlakka ég bara til að mæta mínu gamla liði og óska ég þeim alls hins besta í leiknum.“
Þrátt fyrir að hann spili fyrir Draupni þá hefur hann ýmis tengsl við KA. En hver eru þau helstu?
,,Ég er að þjálfa bæði efnilega stráka og stelpur hjá KA. Þrátt fyrir að spila fyrir Draupni þá er maður og verður alltaf KA-maður. Þá hefur maður í gegnum tíðina skrifað ófáa pistlana á heimasíðuna og mun eflaust gera það eitthvað í sumar,“ sagði Alli.

,,Þetta verður skemmtilegt sumar hjá Draupni held ég. Liðið hafi alla burði til þess að berjast um sæti í úrslitakeppninni.“

,,Við höfum æft einu sinni í Boganum, einu sinni á sparkvelli og oftast einn leikur á viku,“ sagði Alli, aðspurður um æfingaaðstöðu Draupnis.

Þegar við spurðum Aðalbjörn út í stöðu hópsins þá hafði hann þetta að segja: ,,Þetta er breiður og flottur hópur hjá okkur, Hlynur Birgis er ekki í öfundsverðu hlutverki að velja í hóp hverju sinni. Alltaf strákar sem gætu staðið sig fínt sem eru ekki í hóp."
Við þökkum Alla kærlega fyrir þetta og óskum honum alls hins besta. Að lokum vildi hann hvetja alla til að mæta á mánudaginn sem og á aðra heimaleiki KA í sumar. ,,Áfram KA og Draupnir!,“ sagði þessi hressi KA-maður.