Aðalfundur knattspyrnudeildar KA fimmtudaginn 25. febrúar 2010
Fundurinn fór fram í KA-heimilinu og hófst klukkan 20.12.
1. Fundargestir boðnir velkomnir - Bjarni Áskelsson, formaður knattspyrnudeildar, bauð fundarmenn velkomna og tilnefndi Steindór Gunnarsson sem fundarstjóra og Óskar Þór Halldórsson sem ritara. Bjarni gaf síðan Steindóri fundarstjóra orðið.
2. Fundarstjóri kynnir dagskrá fundarins - Steindór bauð fundargesti,sem voru á þriðja tuginn, velkomna og fór stuttlega yfir dagskrá fundarins. Hann gaf síðan orðið til Bjarna Áskelssonar, formanns stjórnar knattspyrnudeildar, sem flutti skýrslu stjórnar.
3. Skýrsla stjórnar fyrir 2009 - Bjarni Áskelsson rifjaði upp í upphafi skýrslu sinnar að á aðalfundi knattspyrnudeildar sem var haldinn árið 2009 voru kjörin í stjórn Bjarni Áskelsson, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Jónsson, Valgerður Davíðsdóttir, Páll Jónsson, Auðunn Víglundsson og Halldór Aðalsteinsson. Varamenn voru kjörnir Gunnar Níelsson og Siguróli Magni Sigurðsson.
Bjarni sagði rekstur knattspyrnudeildar KA hafa gengið mjög vel á árinu 2009. Bæði meistaraflokkur og unglingaráð hafi skilað hagnaði
í rekstri; meistarflokkur 1,2 miljónum kr og yngri flokkar 1,9 milljónum kr. Bjarni sagði að það yrði að teljast frábær
árangur miðað við þær aðstæður sem hafi skapast í þjófélaginu undanfarna mánuði og væri hann virkilega
ánægður með hversu vel hafi til tekist. Tekist hafi að greiða niður skuldir og nú séu skuldir knattspyrnudeildar sáralitlar.
Bjarni sagði N1-mótið sem fyrr vera langstærstu fjáröflun knattspyrnudeildari og hafi þátttakan í mótinu sl. sumar verið mjög
góð. Undir stjórn Magnúsar Sigurólasonar mótstjóra og hans hundtrygga aðstoðarmanns, Gunnars Gunnarssonar, hafi mótið gengið
mjög vel fyrir sig og þeir ásamt heilum her sjálboðaliða séð til þess að mótið hafi verið til fyrirmyndar og KA til
sóma. Af öðrum fjáröflunum knattspyrnudeildar nefndi Bjarni tónleikahald, blóma-, bóka- og könnusölu og margt fleira. Sagði Bjarni
framlag mikils fjölda sjálfboðaliða vera ómetanlegan og vildi hann og stjórnin koma á framfæri kæru þakklæti fyrir þeirra mikla
og óeigingjarna starf í þágu knattspyrnudeildar KA. Án þeirra mikla starfs væri afar erfitt að reka knattspyrnudeild KA. Einnig þakkaði
Bjarni helstu styrktaraðilum knttspyrnudeildar 2009 fyrir stuðninginn, en þeir eru N1, Goði, Greifinn, Bílaleiga Akureyrar, Landsbankinn, Ölgerðin, Nettó,
Ásprent-Stíll, Hummel og Sportver. Bjarni sagði yngriflokkaráð undir forystu Unnar Sigurðardóttur hafa unnið frábært starf á
síðasta ári, eins og árið áður, og væri rekstur þess í góðum farvegi. Spennandi verði að fylgjast með
nýjasta útspili yngriflokkastarfsins næsta sumar þegar Arsenal-menn mæti á KA-svæðið.
Samstarf knattspyrnudeildar KA við MA og VMA varðandi uppbyggingu á knattspyrnuakademiu við skólana, hélt áfram, að sögn Bjarna, en þar eru
allar deildir KA og önnur íþróttafélög á Akureyri að vinna í því að hægt sé samræma
íþróttir og námið.
Bjarni sagði að í nóvember sl. hafi Þjálfarafélag KA verið stofnað og væri tilgangur þess að miðla þekkingu og reynslu
milli þjálfara allra deilda KA. Fulltrúi knattspyrnudeildar í stjórn Þjálfarafélags KA er Pétur Ólafsson.
Bjarni rifjaði upp að sl. sumar hafi KA endað í 5. sæti í 1. deildinni, sem var mjög jöfn og lengi vel hafi nokkur lið átt möguleika
á að fara upp um deild. Að lokum fór það svo að Selfoss og Haukar fóru upp og næstu lið þar á eftir voru HK,
Fjarðarbyggð og KA. KA var 9 stigum frá sætinu sem gaf þátttökurétt í efstu deild. Bjarni sagði markmið KA næsta sumar
vera að gera enn harðari atlögu að því að komast upp um deild. En ljóst sé að það verði ekki auðvelt og reikna megi með
að deildin verði ekki síður jöfn næsta sumar.
Annar flokkur karla spilaði í A-deild sl. sumar og endaði í 7. sæti. Þjálfari liðsins síðasta sumar var Örlygur Þór
Helgason. En núna í haust tók Slobodan Milisic, Miló, við þjálfun flokksins og mun hann, að sögn Bjarna, ásamt Dean
Martin og Steingrími Erni Eiðssyni, undirbúa strákana undir komuna í meistarflokk. Þá sér Miló einnig um þjálfun
þeirra sem æfa með knattspyrnuakademíunni.
Í lokahófi knattspyrnudeildar sl. haust var Haukur Heiðar Hauksson kosinn besti leikmaður sumarsins og Hallgrímur Mar Steingrímsson sá efnilegasti.
Haukur Heiðar endaði síðan í öðru sæti í kjöri á íþróttamanni KA.
Bjarni sagði að fimm knattspyrnumenn í KA hafi á síðasta ári spilað með landsliðum Íslands. Þetta voru Helena Jónsdóttir
og Ágústa Kristinsdóttir sem spiluðu með landsliði U/17, Andri Fannar Stefánsson og Haukur Heiðar Hauksson sem spiluðu með U/19 landsliði
Íslands og Ómar Friðriksson sem spilaði með U/17landsliði Íslands.
Bjarni ræddi um vallarmál KA og sagði að eins og flestir vissu hafi lítið gerst í framkvæmdum á KA-svæðinu frá síðasta
aðalfundi, enda hafi allar framkvæmdir við uppbyggingu á stúku og knattspyrnuvelli verið stöðvaðar. Ákveðið hafi verið
að KA fengi Akureyrarvöll til afnota og strax eftir að síðasta leik lauk s.l. haust hafi framkvæmdir við völlinn hafist. Unnið hafi verið að
því að að slétta völlin og verði spennandi að sjá í vor hvernig til hafi tekist.
Þá gat Bjarni um að þessa dagana standi yfir viðræður við Akureyrarbæ um rekstur Akureyrarvallar og eins um uppbyggingu á KA
svæðinu. Verið sé að kortleggja næstu 5-10 árin í samstarfi KA og Akureyrarbæjar. Þær viðræðum gangi nokkuð vel
og sé niðurstöðu að vænta innan tíðar.
Í lok skýrslu stjórnar þakkaði Bjarni leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum í KA-heimilinu fyrir frábært samstarf og
endurtók þakklæti stjórnar knattspyrnudeildar til þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem unnu í þágu deildarinnar á
síðasta starfsári fyrir gott og mikið starf.
4. Skýrsla formanns yngriflokkaráðs - Unnur Sigurðardóttir, formaður yngriflokkaráðs, sagði árið hafa gengið mjög vel. Mjög gott þjálfarateymi héldi utan um þjálfun yngri iðkenda, sem væri stöðugt að fjölga. Þannig séu yfir 300 krakkar að æfa í vetur, sem er met. Þá hafi met verið slegið sl. sumar í fjölda iðkenda í yngri flokkunum. Sérlega ánægjulegt hafi verið að sjá mikinn fjölda iðkenda í áttunda flokki, en þegar mest var mættu um 80 krakkar á æfingar í þessum flokki. Unnur sagði að Samherjastyrkurinn svokallaði hafi gert það að verkum að unnt var að bjóða æfingar í áttunda flokki án endurgjalds og einnig hafi verið unnt að lækka æfingagjöld iðkenda KA um níu þúsund krónur. Unnur sagði framlag Samherja ómetanlegan styrk við barna- og unglingastarf í félaginu og ýta undir meiri þátttöku í knattspyrnunni en ella. Fyrir þetta væri yngriflokkastarfið afar þakklátt.
Unnur nefndi þá nýjung í yngriflokkastarfinu hjá KA að efna til samstarfs við enska úrvalsdeildarliðið Arsenal, en frumkvæði í því máli hafi átt Pétur Ólafsson, yfirþálfari yngriflokkastarfsins. Nú væri unnið á fullu við undirbúning Knattspyrnuskóla Arsenal á KA-svæðinu í júní nk. Unnur sagði áhugann á skólanum hafi verið afar mikinn og á stuttum tíma hafi öll pláss í skólanum selst upp, en í það heila eru þau 300. Gaman væri að segja frá því að í skólann komi krakkar allsstaðar að af landinu, en rúmlega helmingur þátttakenda komi frá Akureyri.
Þá gat Unnur um að Arna Alfreðsdóttir hafi styrkt yngriflokkastarfið í knattspyrnunni með fjárframlagi, sem hafi nýst vel til þess að greiða fyrir aukaæfingar og styrktaræfingar sem Dean Martin stýri.
5. Reikningar kynntir - Bjarni Áskelsson kynnti reikninga knattspyrnudeildarinnar. Fram kom að tekjur deildarinnar á síðasta ári voru 60,6 milljónir en áætlunin gerði ráð fyrir 64 milljónum. Tekjurnar 2008 voru 68 milljónir.
Af rekstrartekjum námu framlög og styrkir 12,3 milljónum króna, æfingagjöld 12 milljónum, vörusala og auglýsingatekjur 10,8 milljónum og aðrar fjáraflanir – N1-mót og fleira – 23,4 milljónum króna.
Rekstrargjöld voru 57,7 milljónir, sem var um 4 milljónum króna lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Árið 2008 voru rekstrargjöld 65 milljónir. Laun og launatengd gjöld voru 35,3 milljónir á síðasta ári, stjórnunarkostnaður 1,6 milljónir, íþróttaleg viðskipti 12,9 milljónir og vörukaup og kostnaður vegna fjáraflana 7,9 milljónir.
Hagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda voru 2,9 milljónir, samanborið við 2,8 milljónir árið áður.
Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld námu 230 þúsund krónum og því var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 3,1
milljón króna samanborið við tæplega 2 milljónir króna árið 2008. Þar af nam hagnaður af rekstri meistara- og 2. flokks 1,2
milljónum, en yngriflokkastarfið (frá 8. flokki og upp í 3. flokk) var rekið með 1,9 milljóna króna hagnaði.
Fram kom hjá Bjarna Áskelssyni að á síðasta ári velti meistaraflokkur 44 milljónum króna en yngriflokkastarfið 17 milljónum. Bjarni
sagðist í það heila vera mjög sáttur við þessa rekstrarniðurstöðu á síðasta ári.
Að lokinni kynningu á reikningunum voru þeir bornir upp og samþykktir samhljóða.
Stjórnarkjör – Fundarstjóri bar upp tillögu um stjórn knattspyrnudeildar fyrir næsta ár og var hún samþykkt samhljóða. Í stjórn voru kjörnir aðalmenn: Bjarni Áskelsson, Halldór Aðalsteinsson, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Níelsson og Páll Jónsson. Varamenn voru kjörin Sigurbjörn Sveinsson og Valgerður Davíðsdóttir.
Önnur mál – Steindór Gunnarsson, fundarstjóri,gat þess að á fundinum væri Þormóður Einarsson, sem var fyrsti formaður knattspyrnudeildar KA árið 1975. Færði hann Þormóði og þeim frumkvöðlum sem voru í fyrstu stjórn knattspyrnudeildar sérstakar þakkir fundarins og bætti við að það væri verðugt verkefni að taka saman knattspyrnusögu KA, mikilvægt væri að halda sögunni til haga.
Stefán Gunnlaugsson, formaður KA, sagði fulla ástæðu til þess að vera sáttur við síðasta ár. MIðað við aðstæður í þjóðfélaginu væri það mikill og góður árangur að reka knattspyrnudeild KA með hagnaði. Ánægjulegt væri að geta sagt frá því að í heildina kæmi félagið vel út á síðasta ári, en gerð yrði nánari grein fyrir því á aðalfundi KA.
Stefán ræddi um vallarmál og sagði lítið hafa gerst nema að Akureyrarvöllur hefði verið lagaður, en þar myndi KA spila sína heimaleiki næstu ár. Stefán sagðist vija orða það svo að Akureyrarvöllur verði aðalvöllur bæjarins áfram, en KA muni alfarið sjá um rekstur hans. Stefán sagðist vilja heita á alla KA-menn að vinna ötullega að því að gera Akureyravöll að öflugum heimavelli KA. Þarna væri félagið með gimstein í höndunum og því væri afar mikilvægt að vel tækist til að gera völlinn að enn betra svæði.
Stefán fagnaði mjög því frumkvæði Péturs Ólafssonar og yngriflokkastarfsins að fá Knattspyrnuskóla Arsenal til Akureyrar og sagðist þess fullviss að þetta yrði lyftistöng fyrir ungt knattspyrnufólk og félagið.
Vignir Þormóðsson lýsti ánægju með fjárhagslegan árangur knattspyrnudeildar KA, en hann sagðist ekki vera ánægður fyrr
en félagið færi upp um deild. Vignir sagðist vita að afar vel hafi verið unnið að málum hjá knattspyrnudeildinni, bæði hvað
varðaði meistaraflokk og 2. flokk karla og ekki síður í yngriflokkastarfinu. Vignir bar fundinum kveðjur bæði framkvæmdastjóra og formanns
KSÍ. Hann sagðist hafa áður lýst þeirri skoðun sinni að mikilvægt væri að byggja upp heimavöll KA á KA-svæðinu,
en miðað við aðstæður í þjóðfélaginu hafi spilast vel úr málum. Hann væri ánægður með að KA hafi
fengið Akureyrarvöll til umráða og mikilvægt væri að nýta hann vel fyrir félagið. Ástæða væri til þess að yngri
flokkarnir nýttu líka æfingasvæðið við völlinn.
Vignir sagðist hafa verið mjög ósáttur við þá ákvörðun ríkisvaldsins að skera niður ferðastyrki á þessu
ári, þeir hafi átt að vera 90 milljónir króna en væru 57 milljónir.
Steindór Gunnarsson sagði að nú væri það að gerast að KA væri að fá heimavöll. Ótrúlegir atburðir hafi leitt til þess að þetta hafi orðið niðurstaðan. Steindór sagði það óumdeilt að gengi knattspyrnuliðs færi að miklu leyti eftir gengi þess á heimavelli. Því væri hins vegar ekki á móti mælt að gengi KA á Akureyrarvelli í gegnum árin hafi ekki verið til þess að hrópa húrra yfir. Nú væri það verðugt verkefni að skapa Akureyrarvöll sem öflugan heimavöll félagsins.
Að því búnu þakkaði Steindór fundarmönnum fyrir góða og málefnalega umræðu og sleit fundi.
Fundinum var slitið kl. 20.56.