KA-menn tóku daginn snemma og óku suður á Akranes þar sem þeir spiluðu æfingaleik við heimamenn kl. 13.00 í dag - og höfðu betur með tveimur mörkum gegn einu.
Byrjunarlið KA var þannig skipað:
Markvörður: Fannar Hafsteinsson
Miðverðir: Gunnar Valur Gunnarsson og Elmar Dan Sigþórsson
Vinstri bakvörður: Jón Heiðar Magnússon
Hægri bakvörður: Jakob Hafsteinsson
Miðja: Túfa, Davíð Rúnar Bjarnason og Bjarki Baldvinsson
Hægri kantur: Ævar Ingi Jóhannesson
Vinstri kantur: Hallgímur Mar Steingrímsson
Framherji: Jóhann Örn Sigurjónsson
Á bekknum voru Arnór Egill Hallsson, Ívar Guðlaugur Ívarsson, Árni Arnar Sæmundsson og Ásgeir Vincent Ívarsson og komu þeir allir inn á í síðari hálfleik.
KA-strákar komu einbeittir til leiks og voru töluvert sterkari í fyrri hálfleiknum. Það var því í takti við leikinn að Davíð Rúnar Bjarnason skoraði fyrsta mark leiksins með þrumuskoti úr vítateignum eftir sendingu frá Ævari Inga. Boltinn small í þverslánni, þaðan í markmann Skagamann og inn. Baráttugleði KA-stráka kom Skagamönnum greinilega nokkuð á óvart og áttu þeir í töluverðum erfiðleikum framan af fyrri hálfleik. Hallgrímur Mar Steingrímsson innsiglaði síðan góða stöðu KA með frábæru marki rétt fyrir leikhlé þegar hann þrumaði boltanum frá vinstri uppundir markvinkilinn fjær, algjörlega óverjandi skot. KA-menn voru óheppnir að skora ekki fleir mörk í fyrri hálfleik, í tvígang komst Jóhann Örn í ágæt færi en Skagamönnum tókst að bjarga á síðustu stundu.
Skagamenn komu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik en KA-menn vörðust vel og áttu líka fínar rispur sem sköpuðu hættu. Þegar tíu mínútur voru eftir minnkuðu heimamenn muninn og þeir fengu síðan á silfurfati vítaspyrnu, vafasama í meira lagi, þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma. Prýðilega tekin vítaspyrna en Fannar vítabani Hafsteinsson var vandanum vaxinn og skutlaði sér á boltann alveg út við stöng og varði glæsilega.
Niðurstaðan því 2-1 sigur á Pepsídeildarliði Skagamanna í þessum æfingaleik á Akranesi í dag. Vissulega æfingaleikur, en gefur þó sterkar vísbendingar um að KA-liðið er komið töluvert lengra en á sama tíma fyrir ári síðan. Sjálfstraustið hjá ungu strákunum hefur aukist og nýir liðsmenn okkar, Gunnar Valur og Bjarki, auk Elmars Dans, hafa fært aukna yfirvegun og baráttu inn í liðið. Í næstu viku spilar KA tvo æfingaleiki - annars vegar við Völsung og hins vegar við Tindastól. Að þeim leikjum loknum tekur við kærkomið jólafrí.