KA-stelpan Ágústa Kristinsdóttir, leikmaður Þórs/KA í 2. og meistaraflokki, hefur verið kölluð inn í landsliðshóp U-17 fyrir úrslitakeppni Evrópumóts U-17 sem fram fer í Sviss í næstu viku. Ágústa var í undirbúningshópnum, en var ekki valin í endanlegan hóp, en vegna meiðsla tveggja leikmanna var Ágústa og Berglind Rós Ágústsdóttir úr Val, verið kallaðar inn í hópinn.
Þorlákur Árnason, landsliðsþjálfari, hringdi í Ágústu í gær og tilkynnti henni að hún væri komin inn í hópinn. Ágústa segir að þetta hafi komið sér skemmtilega á óvart. Hópurinn kemur saman til æfinga nk. sunnudag og fer síðan til Sviss í næstu viku og spilar við Spánverja á fimmtudag, þann 28. júlí. Sama dag spila Frakkar og Þjóðverjar. Sigurliðin úr þessum tveimur leikjum spila síðan um Evrópumeistaratitilinn sunnudaginn 31. júlí og tapliðin um þriðja sætið sama dag.
Ágústu, sem hefur æft og spilað upp alla yngri flokka KA (var fyrirliði 3. flokks í fyrra) og er nú ein af aðstoðarþjálfurum í 8., 7. og 6. flokki, er óskað til hamingju með að hafa verið valinn í hópinn og er henni og liðinu óskað góðs gengis í Sviss í næstu viku. Evrópumeistaratitill er í húfi!