KSÍ: Sætin verði komin í stúku Akureyrarvallar fyrir 15. júlí nk.

Stjórn KSÍ hefur samþykkt að heimila KA að spila heimaleiki sína á Akureyrarvelli næsta sumar með því skilyrði að 300 aðskilin sæti verði komin í stúku vallarins fyrir 15. júlí nk.

Þetta skilyrði ætti að vera nokkuð auðvelt að uppfylla því Fasteignir Akureyrarbæjar hafa fyrir nokkru pantað tæplega 700 sæti - eða eins og stúka Akureyrarvallar rúmar - frá Ítalíu og er afgreiðslufrestur þeirra sagður 4-6 vikur. Samkvæmt því ættu sætin að vera komin til Akureyrar nálægt mánaðamótum apríl-maí.

Vaskur hópur KA-manna annaðist niðurrif gömlu bekkjanna í stúku Akureyrarvallar og var því verki lokið á tveimur dögum - á fimmtudag og föstudag í síðustu viku. Fasteignir Akureyrarbæjar mun undirbúa niðursetningu sætanna, en við það er miðað að dugmiklir KA-menn setji sætin á sinn stað þegar þar að kemur. Þess er vænst, ef áætlanir ítalska framleiðands standast, að sætin verði komin á sinn stað þegar KA-menn taka á móti Víkingum Reykjavík í fyrsta heimaleiknum á Akureyrarvelli síðla maímánaðar.