2.fl: Alvöru KA/Þórs-slagur á Þórsvelli

Það verður örugglega ekkert gefið eftir á Þórsvelli kl. 17.00 á morgun, þriðjudag, þegar 2. flokkur Þórs og KA mætast í síðasta leik sumarsins í A-deild Íslandsmótsins. Og ekki nóg með að þetta verði Akureyrarslagur með öllu sem því fylgir, heldur verður þetta væntanlega hreinn úrslitaleikur um hvort liðið fellur úr A-deildinni niður í B-deild á næsta keppnistímabili.

Fyrir leikinn á morgun er KA í fjórða neðsta sæti í A-deild með 19 stig. Þar fyrir neðan er Fjölnir/Björninn með 18 stig, Þór er nú í fallsæti með 16 stig og neðstir eru Valsmenn með aðeins 3 stig. Fjölnir/Björninn,sem verið hefur á miklu skriði að undanförnu, er líklegur til að bjarga sér frá falli því liðið tekur á móti Valsmönnum á morgun í síðasta leiknum. Með sigri á Valsmönnum er Fjölnir/Björninn kominn með 21 stig og öruggir með sæti í deildinni. Til þess að tryggja sæti sitt í deildinni þarf KA annað hvort jafntefli eða sigur á Þór á morgun. KA hefur nú tveimur mörkum betri markatölu en Þór, sem getur skipt miklu máli þegar upp verður staðið.

Dómari í leiknum á morgun verður Bjarni Hrannar Héðinsson.

Allir KA-menn eru hvattir til að mæta á Þórsvöll á morgun og hvetja strákana til sigurs. Þetta verður harður slagur og góður stuðningur skiptir gríðarlega miklu máli.