Andri Fannar með KA næsta sumar

Andri Fannar í baráttu við Dalvíkinginn Snorra Eldjárn Hauksson í hinum ógleymanlega sigri KA á Þór …
Andri Fannar í baráttu við Dalvíkinginn Snorra Eldjárn Hauksson í hinum ógleymanlega sigri KA á Þór í undanúrslitaleik Íslandsmótsins í 3. flokki sumarið 2007.
KA framlengdi samning sinn við hinn kornunga Andra Fannar Stefánsson á sunnudaginn. Heimasíðunni þykir ekki leiðinlegt að heyra að pilturinn sé tilbúinn að spila með norðlenska stórveldinu áfram. Flest liðin í efstu deild voru búin að bera víurnar í kappann en hann tók þá skynsamlegu ákvörðun að vera áfram í föðurhúsum. Maturinn hjá mömmu þótti meira freistandi en að hækka sig um deild og spila með miðlungsliði á höfuðborgarsvæðinu.

Hér getur að líta frétt um málið frá fótbolti.net.
Andri Fannar Stefánsson miðjumaður KA skrifaði í gær undir nýjan eins árs samning við 1. deildar félagið þrátt fyrir mikinn áhuga liða úr efstu deild á að klófesta hann. Samningur Andra Fannars við KA átti að renna út um áramótin og því máttu önnur félög hefja viðræður við hann 16. október síðastliðinn.
Meirihluti liðanna í Pepsi-deildinni hafði samband við hann en hann valdi að halda tryggð við sitt félag og framlengja til eins árs svo hann leikur áfram í 1. deildinni næsta sumar.
Andri Fannar er 18 ára miðjumaður sem er uppalinn hjá KA þar sem hann hóf meistaraflokksferil sinn sumarið 2008. Hann átti fast sæti í liði KA í sumar og lék alla 22 leiki liðsins í deildinni auk þriggja bikarleikja. Hann skoraði í þessum leikjum fjögur mörk. Kappinn hefur leikið 41 leik fyrir KA og skorað 6 mörk. Hann hefur leikið 15 landsleiki, 5 með U19, 3 með U18 og 7 með U17.