Heimasíðan heyrði hljóðið í Skagamanninum Andra Júlíussyni í dag en í vikunni var ákveðið að hann kæmi til KA
á láni út tímabilið frá úrvalsdeildarliði ÍA. Andra líst vel á þessa tilbreytingu og hlakkar til að koma norður.
,,Það var þannig að ég hef lítið verið að spila fyrir Skagann og Dínó
hringdi í mig og spurði hvort ég væri til í að
koma og spila fyrir KA. Ég sagðist vera klár ef Arnar og Bjarki leyfðu það og það gerðu þeir og því er ég á leiðinni
norður út tímabilið," sagði þessi hressi sóknarmaður.
Andri og Arnar Már Guðjónsson sem hefur leikið með KA þetta sumarið á miðjunni og staðið sig mjög vel eru mestu mátar enda
báðir uppaldir Skagamenn og hafði það sitt að segja með það að Andri ákvað að slá til og koma norður.
,,Við Arnar erum góðir vinir og tölumst mikið við og náum vel saman inni á vellinum. Dínó þekki ég
líka vel og veit að hann er með mikinn metnað þannig að ég hlakka bara til að gera mitt besta fyrir KA."
,,Ég býst við því að þessi dvöl reynist mér mjög vel, þetta er fínt tækifæri fyrir mig að fá að spila
heila leiki, skora vonandi eitthvað af mörkum, leggja inn á reynslubankann og koma sterkari til baka með Skaganum á næsta ári."
Andri segist hafa fylgst með KA-liðinu í sumar sem situr í sjöunda sæti deildarinnar með sextán stig eftir fjórtán leiki en næsti
leikur er gegn Haukum á fimmtudaginn nk.
,,Já ég hef fylgst með þeim, því miður hefur ekki gengið eins vel og
ég vonaði hjá Dínó því að ég bjóst við að þeir yrðu við toppinn, en ég segi það hér
með að liðið hefur ekki sagt sitt síðasta og liðið á eftir að blanda sér í baráttunna um að komast upp þó að
vonin sé veik að þá er mótið langt og við eigum eftir að narta í þá sem eru fyrir ofan okkur."
Hann á að baki alls 63 leiki með Skagamönnum síðan árið 2005 þegar hann hóf sinn meistaraflokksferil með félaginu en í sumar
hefur hann ekki náð að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður og gengið verið dapurt hjá Skagamönnum sem sitja í næstneðsta
sæti deildarinnar.
,,Að sjálfsögðu eru það mikil vonbrigði að hafa ekki fengið að spila meira
því að á undirbúningstímabilinu var ég að spila vel og skora mikið og liðið leit vel út. En svo þegar
maður fær ekki eins mikla sénsa þegar mótiðbyrjar að þá sjálfkrafa missir maður
sjálfstraust og það verða vonbrigði leik eftir leik en ég hef fulla trú á að liðið hrökkvi í gang og við spilum í
efstu deild á næsta tímabili."
Hann hlakkar til að koma norður og lofar skemmtilegum tilþrifum fyrir Vini Sagga.
,,Ég er búinn að heyra að
stuðningsmannalið KA sé svakalegt þannig að ég hlakka til að gleðja þá enn meira, því að þeir sem sáu samba dansinn
hjá Adda í fyrra geta farið að hlakka til að sjá eitthvað meira og nýtt. Annars hlakka ég til að koma norður bara og áfram
KA!" sagði Andri Júlíusson að lokum í samtali við heimasíðuna en við bjóðum hann velkominn norður.