Jay yfirþjálfari í Arsenalskólanum: Krakkarnir dýrka fótbolta

Jay Wynter leiðbeinir ungum fótboltakrökkum.
Jay Wynter leiðbeinir ungum fótboltakrökkum.
Arsenalskólinn verður starfræktur á KA-svæðinu þriðja árið í röð sumarið 2012, en sala í skólann hefst nk. laugardag, 3. desember.

Heimasíðan heyrði í Jay Wynter, sem er einn af yfirþjálfurum við skólann. Fyrst var hann spurður í hverju starf hans væri fólgið.

"í starfi mínu sem einn af yfirþjálfurum við Arsenalskólann ferðast ég mikið um heiminn. Árið 2011 hefur ekki verið nein undantekning í þeim efnum, ég hef farið um alla Evrópu, Asíu og Norður-Afríku."

Aðspurður um hvort mikill munur væri á krökkum milli landa/heimsálfa sagði hann: "Krakkarnir eru vissulega ólíkir, enda erum við að þjálfa krakka sem hafa ólíkan bakgrunn. Aldur, kyn og trúarbrögð hafa jafnvel áhrif. Því má svo sannarlega segja að ég sé að læra inn á krakkana á sama tíma og ég er að kenna þeim að spila fótbolta."

Um það hvort fótboltakrakkar á Íslandi séu á einhvern hátt ólíkir öðrum sagði Jay: "Það sem ég hef tekið eftir hjá íslenskum krökkum er - og e.t.v. má segja það sama um krakka á Norðurlöndunum yfirleitt - að þeir tala ekki jafn mikið inni á vellinum og gert er annars staðar í heiminum. Ég verð þó að segja að eftir viku í skólanum breyttist þetta mikið til hins betra."

- Hvernig þótti þér takast til í Arsenalskólanum á Akureyri sl. sumar?

"Heilt yfir var virkilega ánægjulegt að þjálfa á Akureyri. Krakkarnir dýrka fótbolta og voru virkilega áhugasamir. Einnig var mjög gaman að verða vitni að því hve viljugir þeir voru til þess að læra. Slíkt er mjög hvetjandi fyrir okkur sem þjálfara."

- Er áhugi breskra liða á ungum íslenskum leikmönnum fyrir hendi?

"Bresk fótboltafélög eru alltaf að leita eftir nýjum stjörnum, hvort sem þær koma frá Íslandi eða Egyptalandi. Það skiptir liðin í raun ekki máli hvaðan leikmenn koma. Sýni leikmaður afburða hæfileika gildir einu frá hvaða landi hann kemur. Ég tel það t.d. skyldu mína sem þjálfara að láta mína samstarfsmenn vita af slíkum leikmönnum. Þannig var t.d. í pottinn búið með Fannar Hafsteinsson, afar efnilegan markmann í KA, en ég tel að hans bíði glæst framtíð í knattspyrnunni."

Jay hvetur alla krakka til þess að gera ætíð sitt besta, hvort sem þeir eru á æfingu, í Arsenalskólanum eða í leik fyrir sín félög, "því maður veit aldrei hver er að horfa."

Að endingu vildi Jay koma því á framfæri að Arsenalskólinn á Akureyri sl. sumar hafi verið sá besti af öllum góðum sem hann starfaði við á þessu ári. "Skólinn var einstaklega vel skipulagður. Vallaraðstæður voru fínar, þrátt fyrir að heldur kalt hafi verið í veðri þessa daga, krakkarnir voru frábærir og það var virkilega gaman að vinna með þeim. Móttökur heimamanna settu síðan punktinn yfir i-ið, þær gerðu skólann ógleymanlegan fyrir okkur sem fengu að starfa við hann," sagði Jay að lokum.