Ásmundur Haraldsson þjálfari Gróttu.
Á morgun, föstudaginn 12. maí fá KA-menn Gróttu í heimsókn. Er það fyrsti heimaleikur liðsins á tímabilinu en verður
reyndar spilaður á Þórsvelli sökum vallaraðstæðna á Akureyrarvelli. Í tilefni leiksins fengum við Ásmund Haraldsson,
þjálfara Gróttu í smá viðtal.
Jæja Ásmundur, nú töpuðuð þið á móti ÍR á heimavelli, mun það hafa einhver áhrif á gang liðsins
næstkomandi föstudag?
,, Nei alls ekki þannig lagað. Auðvitað nálgumst við leikinn öðruvísi með tap
í fyrsta leik en það í sjálfu sér hefur engin áhrif á okkur þannig lagað. Bara spennandi fyrir okkur að fá loks að spila
við stórliðin í 1.deildinni og KA er eitt þeirra liða. Greinilegt að Dean Martin er að gera góða hluti hjá ykkur og er að setja saman
mjög gott lið. Ekki hvaða mannskapur sem er sem getur farið í Laugardalinn og hirt þrjú stig af Þrótturum. Þannig að við komum til
með að mæta mjög sterku liði KA á föstudaginn og við vonandi verðum tilbúnir í þau átök.“
,,Mórallinn er alltaf góður á nesinu. Hópurinn er skemmtilegur og fjölbreyttur og menn ná vel saman utan vallar. Við
erum sjálfsögðu að hrista saman nánast nýjan hóp en 8 nýir leikmenn hafa bæst við hópinn í stað þeirra 11 sem að
hurfu á braut frá okkur í vetur,“ sagði Ásmundur, aðspurður um móralinn í liðinu.
Nú hafið þið ekki nein stór knattspyrnuhús eða eitthvað slíkt til að æfa á veturnar. Hvernig hefur
undibúningstímabilið gengið?
,,Tímabilið hefur gengið ágætlega. Við æfum á gervigrasvellinum okkar
og síðan eru menn að æfa í World Class við frábærar aðstæður. Við höfum tvískipt hlutunum, þeas við æfum
fótbolta útá velli og svo eru menn í þol og styrk í World Class. Einnig höfum við spilað æfingaleiki og fórum m.a. í
æfingaferð til Spánar fyrir páska sem hefur hjálpað liðinu mikið.“
Grótta missir Hrafn Jónsson í leikbann en Ásmundur segir það ekki vera neitt vandamál.
,,Það vantar alltaf
einhverja hjá mér vegna meiðsla, en við missum Hrafn Jónsson úr liðinu vegna leikbanns en fáum vonandi inn 1-2 leikmenn inní hópinn sem
hafa verið meiddir að undanförnu. Annað sýnist mér vera í lagi.“
Félaginu var spáð 11. sæti af spámönnum vefsíðunnar Fótbolta.net og segir Ásmundur stefnuna auðvitað setta
hærra.
,,Við ætlum okkur að vera í sæti 1-10. Því hærra því betra. Ekki mikill áhugi
á þessu 11.sæti sem okkur er lofað.“
Kristján Finnbogason og Sigurvin Ólafsson eru líklega með reyndustu mönnum deidlarinnar. Mun það hjálpa liðinu eitthvað?
,,Já, það er engin spurning. Gríðarleg reynsla í æfingatöskunum hjá þessum tveimur leikmönnum. Ekki
ónýtt fyrir þá reynsluminni að hafa þá sér við hlið.“
Við þökkum Ásmundi kærlega fyrir spjallið.