Atli Sveinn Þórarinsson er snúinn aftur á heimaslóðir en hann tekur nú við starfi afreksþjálfara knattspyrnudeildar KA. Eru þetta afar jákvæðar og spennandi fréttir en stuðningsmenn KA ættu að þekkja vel til Atla Sveins sem er uppalinn hjá KA og lék alls 119 leiki í deild og bikar fyrir KA.
Atli Sveinn mun nú stýra afreksstarfi knattspyrnudeildar þar sem hann mun sinna afreksmálum yngri leikmanna KA auk þess að koma að þjálfun hjá meistaraflokk og 2. flokk félagsins. Það má með sanni segja að mikil eftirvænting sé hjá okkur fyrir endurkomu Atla hingað norður og verður gaman að sjá hann aðstoða okkur við að lyfta okkar góða starfi upp á enn hærra plan.
Sumarið 1996 lék Atli Sveinn sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir KA, þá aðeins 16 ára gamall. Hann sýndi strax mikla leiðtogahæfileika og sló í gegn með liði KA sem endaði með því að hann gekk í raðir Örgryte í Svíþjóð árið 2000. Þar lék hann í fjögur ár og braut sér meðal annars leið inn í íslenska landsliðið en hann lék á sínum ferli 9 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann sneri aftur í KA sumarið 2004 þar sem hann var fyrirliði er KA fór alla leið í bikarúrslit.
Í kjölfarið lék hann með liði Vals árin 2005 til 2012 þar sem hann varð Íslandsmeistari og Bikarmeistari. Hann sneri loks aftur á heimaslóðir og lék með KA 2013-2015, allt í allt lék hann 119 leiki fyrir KA í deild og bikar en hann þurfti að leggja skóna á hilluna á miðru sumri 2015 eftir erfið höfuðmeiðsli.
Að leikmannaferlinum loknum hefur Atli unnið hin ýmsu störf í þjálfun og ljóst að hann mun koma með gríðarlega reynslu inn í afreksstarfið hjá okkur bæði sem leikmaður og þjálfari. Ekki skemmir þá fyrir að hann brennur fyrir KA og erum við í skýjunum með að hafa landað Atla Sveini aftur heim.