Beiðni KA um að spila á Þórsvelli hafnað

Þórsvöllur
Þórsvöllur
Á fundi framkvæmdastjórnar Þórs í dag var beiðni knattspyrnudeildar KA um að fá að leika fyrsta heimaleik okkar á Þórsvellinum hafnað. Ástæður sem gefnar eru að völlurinn sé ekki í nógu góðu ásigkomulagi og veðurspá næstu daga sé ekki hagstæð. Í ljósi þessarar niðurstöðu hefur knattspyrnudeild KA nú þegar óskað eftir því við KSÍ að leikurinn fari fram í Boganum nk. föstudagskvöld kl. 19.00. Beðið er ákvörðunar KSÍ í málinu.
Hér er yfirlýsing frá framkvæmdastjórn Þórs sem send var út í dag.

Yfirlýsing frá framkvæmdastjórn Íþróttafélagsins Þórs

Með hliðsjón af vallaraðstæðum og mjög slæmu veðurútliti næstu daga treystir
framkvæmdastjórn Þórs sér ekki á þessum tímapunkti til að gefa liði KA leyfi til að
leika deildarleik gegn ÍR á Þórsvellinum föstudagskvöldið 20. maí, en samþykkir með
fyrirvara um veður og vallaraðstæður þegar þar að kemur að bikarleikur KA gegn
Grindavík fari fram á vellinum í næstu viku.

Erindi barst frá knattspyrnudeild KA í liðinni viku þess efnis að lið KA fengi að spila sinn fyrsta
heimaleik í 1. deild karla í knattspyrnu á þessu keppnistímabili (föstudaginn 20. maí kl. 19.)
og heimaleik í 32ja liða úrslitum bikarkeppninnar gegn Grindavík (miðvikudaginn 25. maí
kl. 19.15) á Þórsvellinum. Fyrir beiðninni voru tilteknar þær ástæður að Akureyrarvöllur yrði
ekki tilbúinn fyrir knattspyrnuleiki fyrr en í fyrsta lagi um mánaðamótin maí-júní og ekki væri
möguleiki að spila á KA-svæðinu vegna hræðilegra vallaraðstæðna.

Erindið var tekið fyrir á fundi framkvæmdastjórnar Íþróttafélagsins Þórs þar sem vallarstjórar,
formaður knattspyrnudeildar og þjálfarar meistaraflokksliða Þórs og Þórs/KA voru kallaðir til
ráðgjafar og umræðna um þessa beiðni.

Ákvörðun framkvæmdastjórnar Þórs liggur fyrir og tekur meðal annars mið af ástandi
vallarins og mjög slæmri veðurspá næstu daga. Ljóst er að Þórsvöllurinn er í verra ástandi
en hann var á sama tíma í fyrra og meðal annars eru stórir kalblettir í vellinum sem sáð
hefur verið í til að reyna að fá líf í völlinn og eru þau svæði því viðkvæmari en ella. Einnig
ber að hafa í huga að ef báðir umræddir leikir KA færu fram á Þórsvellinum yrði mikið álag á
vellinum þá vikuna, alls fjórir leikir á einni viku (frá föstudagskvöldi 20. maí fram á fimmtudag
26. maí).

Ákvörðun framkvæmdastjórnar Þórs er eftirfarandi:

Með hliðsjón af vallaraðstæðum og veðurútliti næstu daga treystir framkvæmdastjórn
Þórs treystir sér ekki á þessum tímapunkti til að gefa KA leyfi til að leika deildarleik gegn
ÍR á Þórsvellinum föstudagskvöldið 20. maí. Þess í stað beinir framkvæmdastjórnin þeim
tilmælum til forsvarsmanna Knattspyrnudeildar KA að óska eftir því við KSÍ að fá að spila
leikinn í Boganum. Félagið er tilbúið að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru varðandi
æfingar í Boganum til að gera KA og ÍR kleift að spila leikinn þar ef til þess kemur.

Framkvæmdastjórn Þórs samþykkir, með fyrirvara um að veður og vallaraðstæður
verði viðunandi þegar þar að kemur, að KA fái að leika bikarleik sinn gegn Grindavík á
Þórsvellinum miðvikudaginn 25. maí.

Framkvæmdastjórn Þórs lýsir jafnframt áhyggjum af þeirri þróun sem orðið hefur á
undanförnum árum varðandi tímasetningu á upphafi Íslandsmótsins í knattspyrnu og fjölda
leikja í maímánuði. Þessi þróun er því miður í litlu samræmi við hnattræna staðsetningu
landsins.