Boris Lumbana: Ég elska KA og fólkið í kringum félagið

Boris í sínum síðasta leik fyrir félagið, í bili að minnsta kosti
Boris í sínum síðasta leik fyrir félagið, í bili að minnsta kosti

Svíinn Boris Lumbana kom til KA sl. vor að láni frá sænska úrvalsdeildarliðinu Örebro þar sem meðal annars þjálfarinn Gunnlaugur Jónsson lék um tíma. Heimasíðan sló á þráðinn til Boris og spurði hann út í sumarið. “Sumarið var mjög gott, en ég get ekki sagt það sama um veðrið! Það var frekar kalt en í heildina litið var sumarið mjög gott,” sagði Boris. 

Boris átti marga fína spretti með KA-liðinu í sumar og virtist finna sína fjöl þegar hann var settur í bakvörðinn, hann var einn þriggja leikmanna KA til að fá atkvæði í lið ársins á fotbolti.net, valið af fyrirliðum og þjálfurum í 1. deildinni.

Boris telur að koman sín til KA hafi haft góð áhrif á ferilinn. “Já algjörlega, ég hef öðlast meira sjálfstraust og þróað marga þætti í mínum leik sem hafa gert mig að betri leikmanni,” sagði Boris. 

Boris fór aldrei leynt með að honum leið vel á Akureyri og hjá KA. “Ég elska þetta félag og fólkið í kringum það, allt var bara fullkomið og eins og ég hef sagt áður er þetta nú mitt annað heimili,” sagði Boris um dvölina hjá KA.

En býst hann þá við því að snúa til baka á næsta tímabili eða einhvern tímann seinna? “Ég veit ekki með næsta tímabil vegna gildandi samnings míns við Örebro, en það væri mjög gaman að geta spilað fyrir KA aftur einhvern tímann síðar.”

Boris vakti ekki einungis athygli innan vallar í sumar. Einnig vakti hann athygli fyrir einstaklega góða söngrödd og kímnigáfu og lagði hann sín lóð á vogarskálarnar til þess að halda uppi móralnum í liðinu. Boris segir þó að fótboltinn sé næstur á dagskrá út í Svíþjóð. “Næst á dagskrá hjá Boris Lumbana er Örebro, ég ætla að fókusa á fótboltann fyrst og klára tímabilið í Svíþjóð og svo reyni ég við tækifæri að vinna að nýjum lögum,” sagði Boris að lokum, en nýjasta lag hans, “Runaway”, má heyra hér að neðan og spilaðist á meðan þú last fréttina.

Boris - Runaway by borisofficial