Boris Lumbana: Líst vel á þetta þó þið borðið pizzur í flest mál!

Boris er vígalegur að sjá
Boris er vígalegur að sjá
Heimasíðan tók nýjasta leikmann KA, Boris Lumbana, tali í gær og hér er mjög skemmtilegt viðtal við kappann.


Hvernig líkar þér Ísland?

Hingað til er allt gott, mér líkar landið mjög vel og mér líður nú þegar eins og heima og ég fíla líka matinn hérna, þó að þið borðið pizzu í flest mál, ha,ha smá spaug, en Ísland er frábært!


Hvað finnst þér um íslensku?

Ha,ha,ha ég elska þetta tungumál, mér finnst það svo töff og mig langar bara að læra íslensku!


Hvernig líkar þér KA?

Mér finnst KA reyndar mjög áhugaverður klúbbur, mér er sagt að það sé nýbúið að skipta um stjórn og þjálfara sem þýðir að það er stefnt hátt og ég er búinn að tala við nokkra sem vinna hjá KA og sé að þetta er miklu meira en bara einhver smá klúbbur! Bara það að stjórnin hafi framtíðarplan fyrir unga leikmenn gerir mig mjög ánægðan.


Hvernig hefur liðið tekið þér?

Strákarnir hafa tekið mér mjög vel, þeir eru mjög ljúfir, alltaf að tala við mig og reyna  að láta mér líða eins og ég sé heima.


Hvernig líst þér á liðið?

Mjög vel, allir eru ungir og hæfileikaríkir og ég held að við séum með mikil gæði í hópnum. Við verðum bara að vinna aðeins í litlu hlutunum, en í heildina held ég að við séum með frábært lið.


Telurðu að það sé mikill munur á íslenska og sænska boltanum?

Já ég tel það, miðað við það sem ég hef séð af þeim íslenska hingað til. Það er mikið um kýlingar, þess vegna tel ég að við getum verið hættulegir því við erum með mikil gæði í liðinu og getum blandað svolítið saman að spila með grasinu og jafnvel að kýla fram. Í Svíþjóð spilum við nánast bara með jörðinni í lappir og svæði. Það á þó ekki við um öll liðin í Svíþjóð en flest.


Hvað hugsaðir þú þegar þú vissir af áhuga frá KA?

Þegar ég heyrði af áhuga frá KA varð ég pínu stressaður, ekki bara af því þeir höfðu áhuga heldur líka að þeir voru á Íslandi og ég hafði aldrei komið til Íslands. En ég var mjög ánægður og strax var eitthvað sem sagði mér að ég þyrfti að prófa þetta og hér er ég.


Ertu orðinn spenntur fyrir sumrinu?

Já, allir eru að segja við mig: “Ó, Boris þú þarft að upplifa sumarið hér, það er frábært,” svo ég er nokkuð spenntur og býst við mjög góðu sumri á Akureyri.


Það hefur ekki farið framhjá neinum að þú ert söngvari og það nokkuð góður söngvari í þokkabót, fáum við tónleika með Boris Lumbana í sumar?

Þakka þér kærlega! Það væri reyndar algjör snilld að spila fyrir Íslendinga, þannig já hver veit, kannski verða tónleikar með Boris Lumbana í sumar. 



Hér má sjá Boris sýna nokkuð góða dans takta, hann byrjar að taka sporið á sekúndu 40.