Dagur 1 - 11 tíma ferðalag

Menn voru misþreyttir á leiðinni á áfangastað
Menn voru misþreyttir á leiðinni á áfangastað
Vekjaraklukkur hringdu um alla borg á ókristilegum tíma í morgun eða þegar klukkan var við það að slá 5! Þá var það að smala mönnum saman og voru flestir mættir á réttum tíma, klukkan 6:30, í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Stemmningin í hópnum var mjög góð þrátt fyrir mikla þreytu í mönnum og sáust baugar undir augum nokkra leikmanna. Við tók innritun og allt sem því fylgir áður en slakað var á í flugstöðinni og morgunmatur borðaður.


Þar notuðu menn tímann í ýmislegt. Sumir kíktu og keyptu túbbu af sólarvörn, aðrir hentu í Ray Ban sólgleraugu á meðan einhverjir höfðu steingleymt að fá sér gjaldeyri og hentust því um flugstöðina í leit að hraðbanka. Sumir voru þó klárir með allan pakkann og nutu þess því að sá aðra hlaupandi um stöðinna í örvæntingu.

Eftir tveggja klukkutíma bið í flugstöðinni var kallað út í vélinna sem átti að flytja mannskapinn beint til Alicante á Spáni á rúmum 4 klukkutímum. Eins og við var að búast var tíminn lengi að líða í þröngri, heitri og þar af leiðandi frekar sveitri vél en flugfreyjunnar héldu okkur hrægömmunum góðum með reglulegum veitingum. Menn fundu sér margt að gera til að drepa tímann, svefn var mjög vinsæll, hlusta á tónlist eða spila og spjalla var meðal helstu afþreyinga.

Loksins eftir 4 klukkutíma og 20 mínútur vorum við mættir til Alicante, þegar komið var útúr vélinni mætti okkur smá gola sem var gríðarlega fersk undir 22 stiga hita og sól. Það má segja að líkaminn hafi ekki haft hugmynd um hvernig hann átti að haga sér þegar úr vélinni var komið því það er ekki hægt að segja að hann sé vanur þessum hita, ekki uppá síðkastið allavega.

Ferðalagið var langt frá því búið, við tók klukkutíma bið eftir töskum, sem skiluðu sér sem betur fer allar. Eftir klukkutíma á flugstöðinni var hópurinn ferjaður með rútu í klukkutíma ferð til Murcia þar sem við munum dvelja þessa viku á Hótel Thalasia. Þegar á hótelið var komið voru liðnir 11 klukkutímar frá því að vekjaraklukkurnar glumdu og því fínasta ferðalag.

Ákveðið var að taka létta æfingu til að taka mesta stirðleikann úr mönnum. Eftir að allir höfðu komið sér fyrir á herbergjum sínum var rölt á völlinn sem er í um 10 mínútna göngufæri, reyndar voru 9 elstu leikmenn hópsins sem fengu far með bílaleigubíl sem við höfum til umráða.

Pinatar Arena heitir æfingasvæðið sem æft er á og er það hið allra glæsilegasta, 3 frábærir grasvellir ásamt magnaðari aðstöðu sem er með rækt, sundlaug og fleiru sem er þó en í smíðum enda völlurinn glænýr og en verið að vinna hörðum höndum að klára. Grasið var þó tilbúið og voru takkaskórnir reimaðir á og menn almennt spenntir að fá æfingar á frábæru grasi. Prógram æfingarinnar var ekki flókið, smá reita bolti þar sem undirritaður var látinn spila með 3 markvörðum af 4 öðrum í reitnum, ég vill ekkert fullyrða en sögur segja að þessi tiltekni reitur hafi skarað framúr á mörgum sviðum. Eftir reitarbolta var teknar smá sendingar áður en teygt var vel á og rölt til baka á hótelið.

Eins og gefur að skilja var ekki búið að borða yfir sig á öllu þessu ferðalagi og var því komið hungur í hópinn þegar loksins var komið að alvöru matartíma og þetta var sko alvöru matartími! Hlaðborð þar sem boðið var uppá svínakjöt, snitzel, spaghettí, súpu, kartöflur í aðalrétt og svo fékk að fylgja salatbar og allskyns ávextir og jógúrt í eftirrétt. Það má vel segja að menn hafi borðað sig sadda af þessum kræsingum áður en fundur var undibúinn með þjálfurunum þar sem farið var yfir plan komandi daga.

Deginum lauk svo klukkan 11 að staðartíma þegar menn héldu til rekkju.

Yfir og út!