Ákveðið var að einungis ein æfing yrði tekin þennan flotta fimmtudag og var hún tekin milli 10 og 12 þar sem farið var mikið í boltatækni á marga mismunandi vegu, fyrirgjafir og skot. Álagið var farið að fá á suma þar sem nokkrir nýjir settust á sjúkrabekkinn hjá Helga í stað þess að æfa en þó engin alvarleg meiðsli, aðalega bara smá eymsli. Hitinn á svæðinu í dag var hrikalegur, sólin skein skært og varla ský á lofti meðan á æfingu stóð og fóru því nokkrar flöskur af vatni ofaní mannskapinn sem svitnaði eins og enginn væri morgundagurinn. Að vanda var Henrik Bodker með markmennina á sínu snærum stóran hluta æfingarinnar og má segja að hann látið þá finna vel fyrir því. Í dag voru þeir hoppandi eins og kanínur útúm allar trissur, yfir hlið og hluti áður en þeir fengu á sig skot frá hinum danska Bodker og má segja að þeir hafi staðið sig gríðarlega vel.
Að lokinni æfingu var mættur á völlinn ágætur herramaður sem var víst varaborgastjóri í borginni sem við dveljum í. Hann kom færandi hendi og afhennti félaginu poka með nokkrum minnjagripum og í staðin fékk hann stórglæsilega KA veifu. Hann bauð okkur meðal annars hjartanlega velkomna og tjáði okkur að það væri þeirra áætlun að gera þetta svæði enþá ákjósanlegra fyrir lið til að koma til æfingabúða.
Eftir æfingu var haldið í hádegismat þar sem matseðill frá hádeginu á undan var enþá við líðin og greinilegt að tilbreytingin er ekki mikil í eldhúsinu en maturinn er góður þrátt fyrir það og rann hann ljúft ofání magann.
Milli hádegis- og kvöldmats var frjáls tími fyrir leikmenn og kusu flestir ef ekki allir að halda af stað í verslunarmiðstöð sem er í grendinni og þar má finna búðir eins og H&M, Zara og fleiri heimsþekktar keðjur. Þangað fóru menn með mismikla pressu á herðunum, sumir fóru þangað bara til að slaka á og versla á meðan aðrir mættu með stóran inkaupalista frá kærustunum/eiginkonunum og hlupu því sveittir um í leit að réttu flíkunum því einhversstaðar segir að það sé betra að halda konunni góðri.
Nokkrir ákváðu áður en í verslunarleiðangur skyldi haldið ætti að henda sér uppá þak og reyna að ná sér í smá lit. Uppá þaki áttu sér stað margir skrýtnir hlutir og ber þar helst að nefna tilraunarstarfsemi nokkra leikmenn með “Hawaiian Tropic Tanning Oil DARK” eða í öðrum orðum sólarolíu sem á að gera þig þeldökkann. Svo lágu menn vel smurðir og flottir að steikjast eins og beikon. Engum sögum fer þó af því hvort menn hafi brunnið eða ekki en allavega komust allir sæmilega heilir frá þessu.
Þrátt fyrir öll þessi herleg heit var dagurinn ekki búinn, menn héldu uppá hótel og slökuðu aðeins meira á áður en í kvöldmatinn var haldið en þar var boðið uppá svipað og venjulega nema búið að henda inn kjúkling og rifjum. Þannig glaðir henntum við því í okkur.
Hótelið okkar er á margan hátt alveg frábært og virðist vera mikið heilsuhótel því hér ráfar fólk um í hvítum sloppum daginn út og daginn inn. Þetta ágæta fólk er þá að koma úr risastóru Spa sem er í boði hér á hótelinu og létum við ekki deigan síga og kíktum í herleg heitin eftir kvöldmat. Þar var nuddpottur, heiturpottur, kaldurpottur, köld laug, kaldurnudd pottur og margt annað og í þokkabót var vatnið salt! ÞVí fékk undirritaður að finna fyrir þegar hann ákvað að rennbleyta skallann með góðri dýfu og tók góðan gúllara af vatninu í leiðinni. Tel líklegt að þarna hafi ég fengið uppí mig ráðlagðan mánaðarskammt af salti.
Menn héldu svo bara til herbergja sinna eða annara til að spjalla saman og drepa tímann fyrir svefn.
Dagurinn í dag var því einkar rólegur og slakandi og er það klárt mál að menn mæta hrikalega ferskir á tvær æfingar á morgun.
Yfir og út!
Myndir dagsins eru komnar á facebook! Og má sjá þær með því að smella hér