Dagur 4 - Gamlir slátruðu ungum

Gamlir voru að vonum kampa kátir með flottan 5-1 sigur
Gamlir voru að vonum kampa kátir með flottan 5-1 sigur
Eftir rólegheitar dag í gær tók alvaran við í dag. Sólin sást ekki mikið, stakk sér af og til fram í gegnum skýjin en gátum þó ekki kvartað undan kulda. Hitinn var gríðarlegur þrátt fyrir mörg ský á himni.


Dagurinn byrjaði gríðarlega vel, ég vaknaði með gríðarlega magaverki úr hungri og því var hrikalega gott að skella sér í morgunmat og skella í sig 3 brauðum með miklu smjöri, hráskinku, eggi og beikoni. Það má segja að mallinn hafi tekið þessum kræsingum fagnandi enda kalóríusprengja á hæsta stigi.

Það voru 2 æfingar þennan daginn, á þeirri fyrri var Túfa búinn að henda upp upphitunaræfingum sem tóku meira en hálfan 11 manna völl og fékk þetta nafnið “skemmtigarður Túfa”. Þar lék hann á alls oddi eins og honum einum er lagið við að koma leikmönnum í gang. Við tóku 3 stöðvar þar sem hópnum var skipt niður og á einni stöð var skallatennis, annari var keppt í löngum sendingum og á þeirri þriðju voru skot og fyrirgjafir. Menn æfðu vel og var gott tempó á æfingunni og einstaka bros stökk á menn. Þannig gleðin var í fyrirúmi en bitnaði þó ekki á gæðunum sem voru til fyrirmyndar. Í lokinn var tekið létt spil í 10 mín svo teygt á og haldið í hádegismat.

Kokkarnir í eldhúsinu tóku sig heldur betur á í dag, í boði var lambakjöt og svo einhverjar stærstu kjúklingabringur sem ég hef séð! Þessar ágætu bringur voru á við einn kjúkling eins og við erum vön á íslandi, en þessir ágætu kjúklingar hafa fengið einhverjar þokkalegar sterasprautur áður en þeir voru eldaðir.

Við tók hrikalegur undirbúningur fyrir leik ferðarinnar. Framundan á seinni æfingun dagsins var leikur “ungir vs gamlir”. Gríðarlega mikið var undir fyrir bæði lið því stoltið verður ekki metið til fjár!  Ég vill reyndar meina að þetta hafi verið “ungir vs yngri” því yngsti leikmaður gamla liðsins var fæddur 1991 og meira að segja tveir leikmenn!

Áður en leikurinn hófst var tekin upphitun í reitarbolta og má segja að sektarsjóður liðsins hafi heldur betur byrjað að tikka inn á þessum 15 mínútum sem reiturinn stóð yfir! Hver klobbinn kom á fætur öðrum og hver bónusinn líka (bónus fyrir 15 sendingar) og var meðal annars einn ónefndur leikmaður sem fékk á sig bónus og 3 klobba í sömu lotunni og var honum gert grein fyrir því að það væru engar fleiri búðar ferðir fyrir hann því hann væri að halda sjóðnum uppi.

Þá var komið að leiknum! Hann náði reyndar aldrei þeim hæðum sem menn þorðu að vona og var í raun búinn eftir ca. 10 mínútur af þeim 40 sem átti að spila því þá voru gamlir komnir í 2-0 og ungir sýndu lítið til að koma sér inní leikinn og má segja að gamlir hafi yfirspilað unga á löngum köflum enda kannski við því að búast þar sem sterkustu leikmenn KA voru í gamla liðinu. Lokatölur urðu 5-1, en ungir komu boltanum í netið í lokinn þegar hinn meiddi Gunnar Valur var búinn að leysa Sandor af hólmi í markinu. Menn voru missáttir og mátti sjá smá pirring á sumum í lok leiks en eins og alvöru íþróttamenn þá róuðu menn sig niður að leik loknum og allir voru vinir. Þetta var hreinlega eins og ævintýri.

Kófsveittir og þreyttir héldu menn í sturtu eða í Spa-ið á hótelinu og slökuðu á vöðvum og öðru eftir erfiðan dag.

Framundan í kvöld er frítt kvöld þar sem menn mega henda sér út að borða og í búðir og svona ef þeir kjósa svo og er 90% af liðinu á leið út enda maturinn í mötuneytinu að verða pínu þreyttur. En eins og góðum þjálfara sæmir setti Bjarni á útivistarreglur og verða allir að verða komnir í koju um 12 að staðartíma enda æfingar á morgun og allir verða að halda einbeitingunni.

Myndir dagsins koma inná facebook fljótlega svo fylgjist vel með!

Yfir og út!