Dagurinn í dag var rólegur í meira lagi enda síðasti æfingadagurinn og leikur gegn Fylki í gær. Æfing var fyrir hádegi þar sem spilað var ungir á móti gömlum þar sem ungir höfðu harma að hefna eftir átakanlegt 5-1 tap í fyrra.
Nokkrir af þeim leikmönnum sem áttu að vera með eldra liðinu voru lemstraðir og treystu sér ekki í að spila og var þess vegna yngsti leikmaður GAMLA liðins fæddur 1994 sem gerði þetta að einu yngsta gamla liði frá upphafi.
Leikurinn var mesta skemmtun og ljóst frá byrjun að hvorugt liðið ætlaði sér að bíða lægri hlut, Bjarni Duffield tók leikinn í sýnar hendur og skoraði þrennu í 3-2 sigri ungra sem fögnuðu ákaft þegar magnaður dómari leiksins, Srdjan Rajkovic, flautaði til leiksloka.
Veðrir þennan daginn var það besta til þessa í ferðinni, hitinn rétt yfir 20 stig og blanka logn sem þýddi aðeins eitt og það var að skella sér á sundlaugarbakkann eftir æfingu og steikja sig svona síðasta daginn, þar lágu nær allir strákarnir í nokkra klukkutíma og það sést svolítið á mönnum nú þegar komið er kvöld, eitt og eitt rautt andlit og rauðir líkamspartar.
Á morgun höldum við svo heim á leið og er brottför frá hótelinu strax klukkan 9 að íslenskum tíma í fyrramálið. Frábær ferð að klárast sem hefur þjappað liðinu vel saman og ekki spurning að þetta hefur bara jákvæð áhrif á liðið í heild sinni, innan sem utan vallar.
-Jóhann Már Kristinsson