Dan Stubbs: Geri alltaf mitt allra besta

,,Ég vonast til að allir hjá klúbbnum geti notið tímabilsins sem vonandi verður frábært.
,,Ég vonast til að allir hjá klúbbnum geti notið tímabilsins sem vonandi verður frábært."
Eins og við greindum frá fyrr í morgun er búið að semja við Dan Stubbs, rúmlega tvítugan enskan miðvallarleikmann, sem verið hefur með liðinu undanfarið. Heimasíðan heyrði í honum hljóðið og virtist Dan vera mjög sáttur með dvölina hér.

,,Mér finnst mjög gott að vera hérna, allir eru mjög vingjarnlegir og hafa boðið mig velkominn, mér líður nánast bara eins og heima nema þegar doktorinn ákvað að minnka nýju fínu treyjuna mína," sagði Dan og hló en vísar þá í atvik þegar Doktor Pétur sem allir ættu að kannast við var að grínast í honum með nýju búningana.

,,Fyrstu kynni mín af klúbbnum eru frábær, það er allt mjög fagmannlega gert og ég er ánægður með að vera hluti af þessu sem er í gangi hérna."

Dan lék í liði sem hét Margate Football Club og tímabilinu hjá því lauk í lok apríl. Eftir síðasta leik var Dan valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum. ,,Ég hef ekki hugmynd afhverju þeir völdu mig. Eina sem ég veit er að ég geri alltaf mitt allra besta og því fannst mér mikill heiður að fá þessi verðlaun."

,,Ég spila hraðan einnar til tveggja snertinga fótbolta og geri hlutina ekki of flókna. Ég vona að það sé það sem stuðningsmennirnir hérna vilji sjá."

Eins og áður hefur komið fram lék Dan í heimalandi sínu og var tímabilið hjá honum rétt að klárast þegar hann kom hingað. En hvernig kom það til að hann endaði hér?,,Dínó talaði við vin minn úti og spurði hvort það væru einhverjir leikmenn sem hefðu áhuga á að spila fótbolta í sumar, svo fékk ég símtal og tveimur dögum seinna er ég hér."

Hann mætti beint í æfingaleik gegn Fylki á gervigrasinu þeirra í Árbænum síðasta laugardag þar sem hann lék allan leikinn og átti fínan leik. ,,Ég held að líkamlega formið á mönnum sé betra hér heldur en þar sem ég var en ég get ekki borið saman fótboltann fyrr en ég er búinn að spila nokkra leiki í viðbót hérna."

,,Ég hef mikla trú á liðinu fyrir þetta tímabil. Allir leikmenn leggja hart að sér á hverri einustu æfingu og ég er pottþéttur á því að við munum gera góða hluti," bætti hann svo við en undanfarið hefur liðið verið að æfa á grasvellinum fyrir neðan Akureyrarvöllinn.

,,Mér finnst Akureyri góður staður, eins og ég sagði áðan þá hafa allir verið mjög viðkunnanlegir og mér finnst útsýnið og landslagið hérna ótrúlegt, eitthvað sem ég sá aldrei þegar ég var á Englandi."

,,Ég vil bara þakka fyrir að fá að vera hérna. Ég hlakka til að byrja tímabilið og vonast til að allir hjá klúbbnum geti notið tímabilsins sem vonandi verður frábært," sagði þessi hressi Breti að lokum.