Darren Lough áfram í herbúðum KA

Darren Lough.
Darren Lough.
KA hefur gert nýjan samning út næsta keppnistímabil við enska bakvörðinn Darren Lough, en hann spilaði með KA á liðnu sumri og var einn af sterkari mönnum liðsins.

Darren Lough er 23ja ára gamall og kemur frá Newcastle. Hann hefur spilað með unglingaliðum og varaliði úrvalsdeildarliðsins Newcastle og einnig kom hann við sögu í æfingaleikjum aðalliðsins. Síðastliðinn vetur spilaði hann með utandeildarliðinu Ashington og hann tók upp þráðinn með því liði eftir að hann fór aftur til Englands eftir að keppnistímabilinu í fyrstu deildinni hér á landi lauk. Með Ashington spilar Darren fram yfir áramót, en þá kemur hann aftur til Akureyrar til þess taka þátt í undirbúningi KA-liðsins fyrir átökin næsta sumar.

Darren spilaði 24 leiki með KA sl. sumar, 21 í 1.deildinni og 3 í Borgunarbikarnum og skoraði í þeim 1 mark - sigurmarkið gegn Þór á Akureyrarvelli. Hann er fjölhæfur varnarmaður - fyrst og fremst er hann vinstri bakvörður en einnig sýndi hann sl. sumar að hann getur auðveldlega leyst vel stöður miðvarðar og hægri bakvarðar. Í heimaleik KA gegn Þór hóf Darren til dæmis leik í stöðu vinstri bakvarðar, en færði sig yfir í miðvörðinn þegar Gunnar Valur Gunnarsson þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Fotbolti.net valdi Darren eimitt leikmann umferðarinnar í 1. deildinni eftir Þórsleikinn og hann var einn af þeim vinstri bakvörðum í deildinni sem var af sömu vefsíðu tilnefndur í úrvalslið fyrstu deildar eftir keppnistímabilið.

"Ég ákvað að gera nýjan samning við KA einfaldlega vegna þess að mér líkar mjög vel hjá félaginu og allir sem vinna í og kringum það er frábært fólk. KA hefur í sínum röðum góða leikmenn og hefur alla burði til þess að ná lengra en sl. sumar þegar félagið endaði í fjórða sæti á lakari markatölu en liðið í þriðja sæti. Mér finnst allir í KA stefna að sama marki og ég vil áfram leggja mitt af mörkum í þágu félagsins. Ég er mjög ánægður með að hafa endurnýjað samning  minn við KA," segir Darren Lough.