KA hefur samið við enska vinstri bakvörðinn Darren Lough, sem er 23ja ára gamall og spilaði með unglingaliðum og varaliði úrvalsdeildarliðsins Newcastle. Hann kom einnig við sögu í æfingaleikjum aðalliðsins. Í vetur hefur hann spilað með utandeildarliðinu Ashington. Darren er nú þegar kominn með keppnisleyfi með KA og því löglegur í fyrsta leik KA-liðsins í 1. deildinni nk. laugardag gegn ÍR-ingum.
Darren kom til Akureyrar sl. þriðjudag og hefur æft tvívegis með KA-liðinu. Gengið var frá samningi við hann í morgun.
"Ég hef aldrei spilað utan Englands. Mér fannst tímabært að víkka út sjóndeildarhringinn og þegar sá möguleiki kom upp á borðið að koma til Akureyrar ákvað ég að slá til. Mér líst vel á KA, liðið hefur innanborðs góða leikmenn sem eiga að geta látið til sín taka. Ég hlakka mjög til þess að taka þátt í baráttunni með liðinu," sagði Lough að lokinni undirskrift samnings í morgun.