Dávid Disztl aftur í raðir í KA-manna

Hér er Dávid Disztl í baráttunni á Akureyrarvelli gegn Selfyssingum sumarið 2009. Þann leik unnu KA-…
Hér er Dávid Disztl í baráttunni á Akureyrarvelli gegn Selfyssingum sumarið 2009. Þann leik unnu KA-menn 2-0. Hér er Disztl að glíma við gamlan miðvörð Selfyssinga, Gunnlaug Jónsson, sem mun þjálfa Disztl í sumar.
Ungverski framherjinn Dávid Disztl er aftur genginn í raðir KA-manna. Hann spilaði með KA sumarið 2009 og aftur sumarið 2010. Fyrra sumarið spilaði hann 22 leiki og skoraði í þeim 18 mörk. Sumarið 2010 kom hann við sögu í 24 leikjum með KA og skoraði 8 mörk.

Í febrúar í fyrra gekk Disztl í raðir nágranna okkar í Þór og spilaði með liðinu í Pepsídeildinni. Hann kom við sögu í 23 leikjum með Þór í deild og bikar og skoraði í þeim 10 mörk.

Frá komu Disztl var greint á kynningarkvöldi knattspyrnudeildar í gærkvöld,

Í viðtali á fotbolti.net í gærkvöld er haft eftir Gunnlaugi Jónssyni þjálfara KA:

,,Hér hefur hann verið síðustu 3 sumur og hefur sannað sig sem markaskorari hér á landi. Við teljum að þeir hæfileikar sem hann hefur passi fullkomnlega inn í þann leikstíl sem okkar lið hefur."

Dávid Disztl er væntanlegur frá Ungverjalandi til Íslands í dag og verður mættur á æfingar með KA-liðinu eftir helgi.