Davíð Rúnar Bjarnason og Ómar Friðriksson, leikmenn meistaraflokks KA í knattsyrnu, framlengdu í dag samninga sína við félagið til næstu tveggja ára.
Davíð Rúnar Bjarnason er fæddur árið 1991 og hefur alla tíð verið í KA. Hann hefur verið á samningi hjá félaginu frá árinu 2009. Davíð Rúnar er miðjumaður og kom við sögu í 22 leikjum KA í 1. deildinni á liðnu keppnistímabili og tveimur leikjum í Valitor-bikarnum og skoraði í þeim fimm mörk. Sumarið 2010 tók hann þátt í 10 leikjum í deild og bikar með KA.
Ómar Friðriksson er fæddur 1993 og er sömuleiðis uppalinn KA-maður. Ómar hefur einnig verið á samningi við KA frá árinu 2009.
Hann spilaði á liðnu tímabili 19 leiki í 1. deildinni og Valitor-bikarnum og skoraði í þeim eitt mark. Auk þess kom Ómar við sögu
í mörgum leikjum 2. flokks á liðnu keppnistímabili. Í lokahófi meistaraflokks KA í september sl. var Ómar valinn efnilegasti
leikmaðurinn og í lokahófi 2. flokks var hann valinn besti leikmaður tímabilsins.
Ómar á að baki þrjá landsleiki í U-17 landsliðinu árið 2009 og í síðasta mánuði spilaði hann tvo landsleiki
með U-19 landsliðinu í Eistlandi. Þá var hann valinn fyrir nokkrum dögum í U-19 ára landsliðið sem fer í næstu viku til
Kýpur til þess að spila þar í undankeppni Evrópumótsins.
Gunnlaugur Jónsson, þjálfari meistaraflokks KA, segir samninga við þessa tvo leikmenn mikið ánægjuefni. “Við erum mjög ánægðir með að Davíð Rúnar og Ómar hafi nú gert nýja samninga við félagið, enda báðir framtíðarmenn í KA-liðinu. Þeir komu töluvert mikið við sögu á sínu fyrsta heila ári í meistaraflokki sl.sumar og öðluðust því mikla og dýrmæta reynslu sem á klárlega eftir að nýtast þeim mjög vel á næsta tímabili,” segir Gunnlaugur.