Einn dagur - Dínó í viðtali: Snýst ekki bara um mig

Hinn spilandi þjálfara KA-manna, Dean Edward Martin, eða Dínó eins og hann er kallaður gaf sér smá tíma frá undirbúningnum fyrir mótið og svaraði nokkrum spurningum fyrir okkur.

Nú eru ákveðin tímamót hjá liðinu, löngu og ströngu undirbúningstímabili að ljúka og við tekur fjögurra og hálfs mánaðar keppnistímabil í fyrstu deildinni en hvernig finnst honum undirbúningstímabilið hafa gengið.,,Mjög vel bara. Mér finnst það hafa gengið heilt yfir, já, ágætlega og ég er mjög ánægður hvernig þetta er að ganga."

Eins og gengur og gerist voru leiknir fjölmargir æfingaleikir á undirbúningstímabilinu og sá síðasti var á sunnudaginn gegn Þórsurum en það var minningarleikur og fóru KA-menn með sigur af hólmi þar. Einnig spilaði liðið í riðli þrjú í A-deild Lengjubikarsins þar sem þeir unnu m.a. úrvalsdeildarlið Þróttar og gerði jafntefli við Fram. Að lokum var svo Powerademótið fyrr í vetur sem KA vann eftir sigur á Þórsurum í hálfgerðum úrslitaleik. En er Dínó ánægður með spilamennskuna í þessum leikjum?

,,Já og nei. Við áttum að bæta meira við og ég held að við getum spilað miklu betri bolta en við höfum spilað, við eigum nóg inni," sagði Dínó en hann sagðist ekki vera farinn að hugsa út í það hvernig deildin muni spilast.,,Ég er ekki búinn að hugsa það langt, ég hugsa bara um fyrsta leikinn sem er á mánudaginn."

Dínó þjálfaði yngri flokka KA við góðan orðstír áður en hann fór á Skagann en nú er hann að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokksþjálfun, er munurinn á því ekki mikill? ,,Nei þetta er svipað, bara eldri leikmenn." sagði Dínó á léttum nótum.,,Nei grín, það er mjög gaman. Allt öðruvísi en ég bjóst við að þetta yrði. Það koma upp öðruvísi mál, þú höndlar leikmennina öðruvísi og þeir eru mjög mismunandi. Þetta er mjög gaman."

,,Ég myndi segja að við værum allir klárir í slaginn í deildinni. Við erum búnir að bíða nógu lengi eftir fyrsta leik, þetta er allt annað þegar hún byrjar, spennan er önnur. Ekki bara æfingaleikur, alvöru þrjú stig í boði. Það verður gaman að sjá hvernig leikmenn bregðast við,"
sagði Dínó þegar talið barst að því hvort liðið væri ekki klárt í slaginn.

Svarið var einfalt við styrkleikum KA-liðsins í sumar. ,,Þeir ellefu sem eru inni á vellinum."

Fyrir tímabilið erum við búnir að fá Ungverjann Norbert Farkas, Arnar Má Guðjónsson, Guðmund Óla Steingrímsson, Þorstein Þorvaldsson og síðast en ekki síst Dínó sjálfan en hvernig passa nýju mennirnir inn í hópinn? ,,Þeir passa frábærlega inn í hópinn sem er mjög skemmtilegur. Það er erfitt að finna nýja menn sem myndu passa svona vel inn, allir sem ég hef valið hafa staðið sig vel og líta vel út í hópnum."

Dínó ætlar sér sjálfur að þeysast upp og niður vænginn í sumar eins og hann gerði hér á Akureyrarvellinum á árum áður. ,,Ég er heill eins og staðan er, en það getur breyst en það eru nóg af mönnum til að spila, þetta snýst ekki um mig."

Nú hafa miklar umræður verið í gangi um framtíðaruppbygginguna á KA-svæðinu, hvort gervigras eigi að vera á aðalkeppnisvelli, eða venjulegt gras og þar fram eftir götunum. Dínó er ákveðinn í þeim málefnum.,,Ég vil fá bæði, gervigras og venjulegt gras en auðvitað spilum við á venjulegu grasi."

,,Svo vil ég bara sjá alla mæta og standa á bakið við okkur. Allir standa saman í sumar,"
sagði Dínó að lokum en fyrsti leikur er á morgun, gegn Fjarðabyggð, í Boganum þar sem grasvellirnir eru ekki klárir.