Endurbætur á Akureyrarvellinum

Akureyrarvöllurinn. Mynd tekin 27. apríl sl. Grasið er orðið mun grænna síðan þá og búið að vinna í …
Akureyrarvöllurinn. Mynd tekin 27. apríl sl. Grasið er orðið mun grænna síðan þá og búið að vinna í vellinum sjálfum.
Á þessu ári mun Akureyrarbær verja tuttugu milljónum króna í endurbætur á stúkunni við Akureyrarvöll en stúkan hefur lítið sem ekkert viðhald fengið síðasta áratuginn og er margt þar sem má betur fara.

Skv. frétt á RUV.is verður núna í vor byrjað að gera lagfæringar á búningsklefum og öðrum rýmum inni í stúkunni en síðar verður farið í endurbætur á stúkunni að utan.

Eins og kom fram í haust verður þetta heimavöllur okkar manna í KA í sumar og því mætti kalla hann einfaldlega KA-völlinn í bænum en unnið er að samningi Akureyrarbæjar og KA um rekstur vallarins.

Í haust var farið í að lagfæra nokkur svæði á vellinum og nýtt gras látið þar. Núna er verið að vinna í vellinum hörðum höndum og gera hann kláran í slaginn fyrir sumarið en fyrsti heimaleikur KA í deildinni er gegn Gróttu föstudaginn 14. maí og er hann settur á Akureyrarvöll. Það á þó eftir að koma í ljós hvort völlurinn verði orðinn klár í tæka tíð.

Afar lítið hefur verið hugsað um stúkubygginguna og grasið á vellinum undanfarinn áratug og því eru þarna mikil tækifæri fyrir KA til að gera bæði stúkuna og grasið og alla umgjörð sem glæsilegasta.