Endurnýjaður samningur við Landsbankann

Við undirritun styrktarsamningsins sl. miðvikudag. Við borðið eru fulltrúar KA (ath. að nýja treyjan…
Við undirritun styrktarsamningsins sl. miðvikudag. Við borðið eru fulltrúar KA (ath. að nýja treyjan var ekki tilbúin þegar myndin var tekin), Fyrir aftan standa fulltrúar Krabbameinsfélags Akureyrar. Mynd: Kristján Kristjánsson
Knattspyrnudeild KA hefur endurnýjað samstarfssamning við Landsbankann til tveggja ára og var skrifað undir hann í Landsbankahúsinu á Akureyri sl. miðvikudag.

Í samningnum kemur meðal annars fram að Landsbankinn hafi sett sér nýja stefnu í stuðningi við íþróttafélög sem hafi fengið heitið "Samfélag í nýjan búning". Í því felst að tengja saman stuðning bankans við íþróttir og mannúðarmál. Landsbankinn setur ekki vörumerki sitt á búninga viðkomandi félags, heldur kemur þar merki líknarfélags sem félagið velur. KA valdi Krabbameinsfélag Akureyrar og því er merki Krabbameinsfélagsins framan á nýjum treyjum KA.

Við undirritun samningsins afhenti Landsbankinn Krabbameinsfélagi Akureyrar eingreiðslu að upphæð 500.000 kr. Hver sigur KA í 1. deildinni í sumar skilar ákveðinni upphæð frá Landsbankanum sem skiptist jafnt á milli knattspyrnudeildar KA og Krabbameinsfélags Akureyrar.