Bjarki Baldvinsson til liðs við KA

Bjarki Baldvinsson og Gunnlaugur Jónsson, þjálfari mfl. KA, í dag.
Bjarki Baldvinsson og Gunnlaugur Jónsson, þjálfari mfl. KA, í dag.

Húsvíkingurinn Bjarki Baldvinsson hefur gengið til liðs við KA og mun hann spila með liðinu í 1. deildinni næsta sumar. Gengið var í dag frá samningi við Bjarka til tveggja ára.

Bjarki Baldvinsson er fæddur 1990 og hefur alla tíð spilað með Völsungi á Húsavík. Hann hefur spilað 97 meistaraflokksleiki fyrir Völsung í 2. og 3. deild og bikarkeppninni og skorað í þeim 21 mark. Síðastliðið sumar spilaði Bjarki 21 leik með Völsungum og skoraði í þeim 4 mörk. Hann er mjög fjölhæfur leikmaður og hefur m.a. spilað framarlega á miðjunni eða hægri eða vinstri kanti.

 

„Ég er mjög ánægður með þennan samning. Ég hef spilað tæplega 100 leik með mínu uppeldisfélagi, en núna fannst mér tímabært að taka næsta skref og fara í sterkari deild,“ segir Bjarki.

Núgildandi samningur Bjarka við Völsung rennur út um áramót og því hafa fjölmörg félög sett sig í samband við hann að undanförnu. En af hverju valdi hann að fara í KA? „Ástæðan er einfaldlega sú að mér líst bara mjög vel á félagið og Gulla þjálfara og þekki ágætlega til nokkurra leikmanna í liðinu. Til dæmis erum við Hallgrímur Mar jafnaldrar og fylgdumst því að lengi í Völsungi. Mér líst bara mjög vel á að taka slaginn með KA,“ segir Bjarki, sem stundar nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands

„Bjarka tók ég fyrst eftir í æfingaleik þegar ég stjórnaði Val veturinn 2010 gegn Völsungi og mánuði síðar þá vorum við Valsmenn mættir í Bogann.  Á undan okkar leik voru Völsungar að spila og þar átti Bjarki stórleik og voru nokkrir leikmenn Vals sem komu til mín meðan á leik stóð og hreinlega sögðu mér að ná þessum strák.  Það gekk ekki eftir en upp frá því hef ég fylgst vel með Bjarka og ég er hrikalega ánægður að hafa nælt í piltinn.  Þetta er leikmaður sem er ekki hár í loftinu en óhemju duglegur og útsjónarsamur með mjög góðan leikskilning. Það er rétt hjá honum að taka skrefið í 1. deildina og sem betur fer valdi hann að ganga til liðs við KA,“ segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari mfl. KA.