Aðalfundur knattspyrnudeildar KA var haldinn kl. 20.00 í fyrrakvöld (5. desember 2011) í KA-heimilinu og þar voru tveir nýir fulltrúar kjörnir í stjórn. Úr stjórn gengu Sigurður Skúli Eyjólfsson og Sigurbjörn Sveinsson en í þeirra stað voru kjörnir í stjórn Eggert H. Sigmundsson og Sævar Helgason.
1. Skýrsla stjórnar
Óskar Þór flutti skýrslu stjórnar í forföllum formanns knattspyrnudeildar, Bjarna Áskelssonar, sem var staddur í Reykjavík vegna jarðarfarar. Flutti Óskar Þór kveðju Bjarna til fundarins.
Óskar Þór rifjaði upp ástæðu þess að aðalfundur knattspyrnudeildar er haldinn á þessum tíma. Sagði hann að á síðasta aðalfundi hafi verið ákveðið að hafa þennan háttinn á – þ.e. að boða til aðalfundar snemma vetrar til þess að auðvelda nýrri stjórn að koma sem fyrst að öllum helstu stefnumarkandi ákvörðunum. Eftir sem áður þyrfti að halda annan fund – þá framhaldsaðalfund – í febrúar til þess að staðfsta ársreikning, eins og leyfiskerfi Knattspyrnusambands Íslands kveður á um.
Um liðið sumar sagði Óskar Þór að það hefði verið mjög erfitt á ýmsan hátt, ekki síst vegna veðurfarsins og þar af leiðandi sérlega erfiðra vallarskilyrða. En með samhentu átaki allra sem hlut áttu að máli hefði tekist að komast í gegnum sumarið án teljandi andlegra sára og fyrir það bæri að þakka. Til marks um erfiðar aðstæður hefðu nánast engar æfingar farið fram á KA-svæðinu fyrr en eftir N1-mótið í júlí og fyrstu leikir í Íslandsmótinu hefðu ekki farið fram á KA-svæðinu fyrr en í ágúst. Slíkt hafi aldrei gerst áður í sögunni og ætti vonandi aldrei eftir að endurtaka sig.
Um árangur meistaraflokks karla á liðnu sumri sagði Óskar Þór að 8. sætið hefði þegar á heildina er litið ekki verið óeðlileg niðurstaða. Liðið hafi teflt fram mörgum ungum leikmönnum, sem voru meira og minna að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki og því hefði mátt búast við töluverðum mótvindi, sem var raunin, einkum framan af sumri. Hins vegar hefði KA-liðið unnið sig ágætlega inn í mótið þegar á það leið og ef horft væri einungis á síðari umferðina hefði árangur KA verið sá þriðji besti í deildinni. Taldi Óskar að sú reynsla sem ungu leikmennirnir í KA-liðinu hefðu fengið í sumar myndi reynast þeim dýrmætur til frekari átaka á komandi árum.
Um árangur 2. flokks karla sagði Óskar Þór að vissulega hefði það valdið vonbrigðum að liðið féll niður um deild, en það væri síður en svo einhver heimsendir. Leikmannahópurinn hefði verið fámennur sl. sumar en á komandi árum yrði hann fjölmennur og myndi örugglega láta að sér kveða.
Óskar Þór kvað árangur yngri flokka KA sl. sumar, þegar á heildina væri litið, vera líklega þann besta í sögu félagsins. Í öllum flokkum hefði náðst flottur árangur. Til dæmis hefði þriðji flokkur karla unnið sig upp um deild og bæði 4. flokkur karla og kvenna og 5. flokkur karla og kvenna hefðu náð í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Þar hefði A-lið 5. flokks kvenna náð lengst, en hann varð að lúta í lægra haldi gegn Val í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Arsenalskólinn sagði Óskar Þór að hefði tekist ljómandi vel, þrátt fyrir einstaklega erfiðar aðstæður – bæði kulda og erfið vallarskilyrði. Til þess að koma skólanum heim og saman hefði þurfti að grípa til þess ráðs að hafa kennsluna á þremur stöðum – á KA-svæðinu, Akureyrarvelli og í Boganum. En þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður hefði allt gengið upp og yfirþjálfari Arsenalskólans hefði nýverið látið þau orð falla í blaðaviðtali að skólinn á Akureyri væri einhver sá besti sem Arsenal stæði að í heiminum. Þar kæmi ekki síst til hversu vel heimamen n stæðu að málum og áhugi íslenskra fótboltakrakka væri ósvikinn. Óskar Þór nefndi að gerður hafi verið samningur við Arsenalskólann um að hér yrði hann áfram og því bæri að fagna, enda væri þetta kærkomin viðbót við fótboltaflóruna hjá ungum og efnilegum íslenskum fótboltakrökkum og einnig væri þetta klárlega sparnaður fyrir margar fjölskyldur sem hug hefðu á því að senda börn sín í slíka erlenda fótboltaskóla. Engin ástæða væri til þess að horfa út fyrir landssteinana þegar sambærilegur skóli væri hér á landi.
N1-mótið í ár tókst með miklum ágætum, að mati Óskars Þórs, þrátt fyrir hræðilegt veður í júní í aðdraganda mótsins. Vallaraðstæður voru ekki góðar, en það sem bjargaði málum var að hann hékk þurr á meðan á mótinu stóð og meira að segja brast sumarið á síðari tvo mótsdagana. Sagði Óskar Þór að slíkt risaverkefni tækist ekki jafn vel og raun ber vitni nema vegna þess að allir sem koma að málum leggja mikla alúð í verkefnið og fyrir það beri sérstaklega að þakka.
Óskar Þór sagði það til marks um gott starf yngri flokka KA að á þessu ári hafi fimm leikmenn frá KA spilað landsleiki fyrir Íslands hönd. Þetta eru Lára Einarsdóttir, Ágústa Kristinsdóttir, Fannar Hafsteinsson, Ævari Ingi Jóhannesson og Ómar Friðriksson.
Varðandi framkvæmdir á Akureyrarvelli sagði Óskar Þór að þeim væri ekki lokið, þrátt fyrir að fyrirheit hafi verið gefin um að þeim yrði örugglega að fullu lokið í ágúst sl. Framkvæmdum innan húss væri að mestu lokið, en út af stæði að laga umhverfið – laga girðingar, leggja stíginn upp að stúku malbiki, tyrfa svæðið sunnan syðra marksins og síðast en ekki síst að koma fyrir skeljasætum í sjálfa stúkuna. Sagðist Óskar Þór vænta þess að unnt yrði að ljúka þessum framkvæmdum næsta vor, enda væri það svo að til þess að uppfylla leyfisreglur KSÍ þyrftu að koma sæti í stúkuna. Fyrr væri framkvæmdin ekki viðurkennt af leyfiskerfi KSÍ.
Þá nefndi Óskar Þór að aðalstjórn KA hafi sent aðalstjórn Þórs bréf þar sem óskað væri eftir að gerðar yrðu breytingar á gildandi samningi milli félaganna um rekstur 2. flokks og meistaraflokks kvenna í knattspyrnu – þ.e. Þór/KA.
Í lok skýrslu stjórnar færði Óskar Þór þakkir til allra þeirra sem hafi lagt starfi knattspyrnunnar í KA lið með einum eða öðrum hætti – þjálfara, iðkenda, stjórnarmanna, foreldra, stuðningsmanna, stuðingsfyrirtækja og fjölmargra annarra. Sérstakar þakkir færði Óskar Þór frá knattspyrnudeild til Gunnars Jónssonar, sem brátt lætur af störfum sem framkvæmdastjóri KA, fyrir hans ómælda framlag til starfs deildarinnar og félagsins í mörg undanfarin ár.
2. Reikningar
Þar sem árið er ekki á enda runnið voru reikningar deildarinnar ekki lagðir fram að þessu sinni. Óskar Þór upplýsti hins vegar að eftir fyrstu tíu mánuði ársins væri reksturinn réttum megin við núllið og vonir stæðu til þess að unnt yrði að halda rekstrinum á því róli þegar árið yrði gert upp. Hann nefndi hins vegar í þessu sambandi að rekstrarumhverfið væri stöðugt erfiðara og í því sambandi væri stöðugt hækkandi kostnaður vegna launatengdra gjalda verulegt áhyggjuefni. Fyrstu tíu mánuðina er velta knattspyrnudeildar 73 milljónir króna – í samanburði var hún 67 milljónir í fyrra – þar af var velta meistaraflokks og 2. flokks karla 47 milljónir en velta yngri flokka 26 milljónir króna.
3. Stjórnarkjör
Tveir stjórnarmenn gengu úr fráfarandi stjórn, þeir Sigurður Skúli Eyjólfsson og Sigurbjörn Sveinsson. Í þeirra stað voru kjörnir Eggert H. Sigmundsson og Sævar Helgason.
Ný stjórn er því þannig skipuð:
Bjarni Áskelsson
Gunnar Níelsson
Páll S. Jónsson
Halldór Aðalsteinsson
Hjörvar Maronsson
Eggert H. Sigmundsson
Sævar Helgason
Ný stjórn mun skipta með sér verkum.
4. Önnur mál
Helga Steinunn Guðmundsdóttir lýsti fyrir hönd KA áhyggjum af lagningu Dalsbrautar og hvatti menn til þess að láta í sér heyra vegna þessarar framkvæmdar.
Óskar Þór upplýsti um gang viðræðna KA og Akureyrarbæjar um nýjan framkvæmdasamning, sem kæmi í stað samningsins sem var gerður 2007 og var settur í frost í kjölfar hrunsins. Hann sagði að búið væri að funda í tvígang (af hálfu KA eru í viðræðuhópnum Hrefna G. Torfadóttir, formaður KA, Sigurbjörn Sveinsson, varaformaður KA og Óskar Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA) með fulltrúum bæjarins. Á fyrri fundinum voru fulltrúar bæjarins þeir Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar og Árni Óðinsson, fulltrúi í íþróttaráði og á þeim síðari Geir Kristinnn og Nói Björnsson, formaður íþróttaráðs. Á síðari fundinum sagði Óskar Þór að komið hefði fram staðfesting á því að gervigrasvöllur yrði kominn á KA-svæðið – á Wembley sunnan KA-heimilisins – vorið 2013, sem hefur verið baráttumál hjá KA í mörg undanfarin ár. Þetta þýddi að jarðvegsframkvæmdir myndu hefjast á svæðinu um áramótin 2012-2013. Óskar Þór sagðist hafa bent á það á fundinum að verkfræðingar teldu að vegna þess hversu blautt svæðið er þyrfti ugglaust að fergja það í lengri tíma og hefði komið fram á fundinum að gripið yrði þá til þeirra ráðstafana sem myndu duga til þess að svæðið væri búið að jafna sig áður en gervigrasteppið yrði lagt á.
Óskar Þór sagði að á fundinum hefði einnig komið fram sú hugmynd af hálfu fulltrúa Akureyrarbæjar að nýta uppgröft úr Dalsbraut til þess að keyra á svæðið sunnan Bónuss og gera þar grassvæði sem myndi nýtast KA. Einnig hefði komið fram að hafin væri skipulagning á svæðinu sunnan núverandi byggðar í Naustahverfi á reit þar sem gert hafi verið ráð fyrir íþróttasvæði – m.a. til afnota fyrir KA.
Um gang viðræðna við bæinn vildi Óskar Þór ekki fullyrða, en sagði vilja til þess að ljúka samningum fljótlega á nýju ári.
Gunnar Níelsson sagði að vonir hans stæðu til þess að KA færi áður en langt um líður upp um deild – helst næsta sumar. Til þess að gæti gerst þyrftu þó allir að leggjast á árar – þjálfarar, leikmenn, stuðningsmenn og stuðningsaðilar.
Unnur Sigurðardóttir sagði það sína skoðun að leikmenn mfl. og 2. fl. karla þyrftu að vera miklu sýnilegri en raun ber vitni varðandi ýmis störf í þágu félagsins – t.d. varðandi dómgæslu. Ekki væri hægt að ætlast til þess að leikmenn í 4. og 3. flokki bæru hitann og þungann af þessum störfum, en síðan legðu leikmenn í tveimur elstu aldursflokkunum ekki sitt af mörkum. Slíkt gæti ekki gengið.
Þegar hér var komið sögu var mælendaskrá tæmd og Egill Ármann frestaði aðalfundi kl. 21.00 þar til framyfir áramót
– líklega í febrúar – þegar reikningar verða lagðir fram.