KA 1 sigraði Magna - KA 2 tapaði fyrir Dalvík/Reyni

Frá leik KA 1 og Magna. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Frá leik KA 1 og Magna. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

KA 1 sigraði Magna í dag í fyrsta leik sínum í Hleðslumótinu í Boganum með þremur mörkum gegn engu. Sigurinn var fyllilega sanngjarn og hefði getað orðið mun stærri. KA 2 tapaði fyrir Dalvík/Reyni með fimm mörkum gegn engu.

Byrjunarlið KA var þannig skipað að í markinu var Sandor. Í hægri bakverði var Jakob Hafsteinsson og Jón Heiðar Magnússon í þeim vinstri. Í hjarta varnarinnar voru þeir Haukur Hinriksson og Elmar Dan Sigþórsson. Á miðsvæðinu voru Davíð Rúnar Bjarnason, Túfa og Bjarki Baldvinsson, á köntunum Ómar Friðriksson og Hallgrímur Mar Steingrímsson og Jóhann Örn Sigurjónsson var fremstri maður.

KA-menn skoruðu fyrsta markið á sjöttu mínútu og þar var að verki Jóhann Örn, sem skrifaði í vikunni undir tveggja ára samning við KA. KA-menn sóttu áfram og áttu mýrmörg færi en tókst ekki að komast í gegnum varnarmúr Magna og þá átti Hjörtur oft fínar vörslur í Magnamarkinu. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Í hálfleik fóru Jakob og Túfa út af og inn á komu Jóhann Helgason, sem skrifaði undir samning við KA í dag, og Þórður Arnar Þórðarson. Síðar í hálfleiknum komu inn á þeir Guðmundur Óli Steingrímsson og Árni Arnar Sæmundsson fyrir Elmar Dan og Jóhann Örn.

Strax í fyrstu sókninni í síðari hálfleik þaut Bjarki Baldvinsson upp hægri kantinn og var felldur inn í vítateig. Dæmd var vítaspyrna en Hallgrímur Mar þrumaði boltanum í þverslána.

Áfram héldu KA-menn áfram að sækja og bar sóknarþunginn loks árangur á 57. mínútu þegar Jóhann Örn bætti við öðru marki sínu í leiknum. Þriðja markið kom síðan á 70. mínútu þegar KA-menn prjónuðu sig í gegnum vörnina og Hallgrímur Mar átti ekki í erfiðleikum með að setja boltann í markið.

Undir lok leiksins áttu Magnamenn eina umtalsverða marktækifærið í síðari hálfleik þegar þeir áttu þrumuskot í samskeytin. Inn vildi boltinn hins vegar ekki og KA-menn brunuðu upp í sókn og Hallgrímur Mar fékk sannkallað dauðafæri sem honum tókst ekki að nýta.

Niðurstaðan því 3-0 sigur á Magna í leik sem seint fer í sögubækurnar fyrir fallegan og eftirminnilegan knattspyrnu.

----

Síðari leikur dagsins var leikur KA 2 gegn Dalvík/Reyni. Sá leikur varð aldrei spennandi. Mikið af óþarfa mistökum gerðu það að verkum að Dalvík/Reynir leiddi 3-0 í hálfleik og í síðari hálfleik bættu Dalvíkingar við tveimur mörkum - lokatölur því 5-0 fyrir Dalvík/Reyni. Fátt um þennan leik að segja - best að gleyma honum sem fyrst.