KA2 varð að sætta sig við 0-2 tap gegn Völsungi í Hleðslumótinu í Boganum sl. sunnudag. Þar með endaði KA2 í neðsta sæti síns riðils í mótinu og spila við Þór2 um neðstu tvö sætin í mótinu. KA1 spilar hins vegar til úrslita í mótinu við Þór1.
Í heildina var leikurinn ekki mjög rishár, en engu að síður börðust liðin ágætlega.
Völsungar komust yfir á 34. mínútu leiksins með marki Halldórs Geirs Heiðarssonar. Hann fékk stungusendingu inn fyrir vörnina og
kláraði færið mjög vel. Þetta eina mark skildi liðin að í hálfleik.
Áfram hélt baráttan í seinni hálfleik og áttu bæði lið fínar sóknir, en markmennirnir voru í aðalhlutverki og
vörðu vel. Völsungur skoraði eina mark hálfleiksins á 60. mínútu og þar var að verki Arnþór Hermannsson. Þar við
sat og úrslitin því 2-0 fyrir Völsung.
KA2 spilar við Þór2 um aðra helgi um 7. sætið í mótinu en KA1 spila við Þór1 til úrslita í mótinu nk. sunnudag í Boganum. KA-menn eru hvattir til að fjölmenna í Bogann og styðja strákana.