Á 5. mínútu fengu Skagamenn ódýra aukaspyrnu útá kanti, flottur bolti kom fyrir og Heimir Einarsson var í dauðafæri en hann er nú ekki þekktur fyrir mörkin. Heimir kom boltanum fyrir tærnar á Guðjóni Heiðari Sveinssyni sem potaði boltanum einn og óvaldaður í slánna og inn. Á þessum tímapunkti voru fáir bjartsýnir í stúkunni.
Dean Edward Martin snéri aftur á gamlan heimavöll, en hann þjálfaði og spilaði með KA síðustu ár. Dínó, sem fékk hlýjar mótökur frá áhorfendum, var nokkrum sinnum tekinn niður á vellinum, en ótrúlegt en satt er þessi 39 ára Englendingur í betra formi en í mörg undanfarin ár.
Korteri eftir mark Skagamanna fengu þeir aðra ódýra aukaspyrnu út á kanti og í þetta skipti var Ólafur Valur Valdimarsson réttur maður á réttum stað og skoraði laglegt mark, staðan 2-0 og útlitið ekki gott fyrir KA- menn.
KA-menn fengu urmul af aukaspyrnum á vallarhelmingi ÍA en reynsluboltar Skagans eru sterkir í loftinu og KA-menn áttu lítið í þessar háloftaspyrnur. Í lok fyrri hálfleiks áttu KA-menn laglegt spil upp kantinn og var Haukur Heiðar Hauksson kominn að inn í teig í kjörstöðu þegar dómari leiksin, Leiknir Ágústsson, ákvað að flauta til hálfleiks og KA-menn frekar brjálaðir yfir þessari ákvörðun Leiknis.
Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og á 53. mínútu áttu þeir laglegt samspil útá kantinum hægra megin, fyrirgjöf kom fyrir og beint á kollinn á hinum snaggaralega Hirti Júlíusi Hjartarsyni og staðan 3-0.
Við þetta hresstust KA-menn aðeins og fóru að spila boltanum betur á milli sín, fyrirliðinn Haukur Heiðar var allt í öllu og á 60. mínútu átti hann góðan sprett upp kantinn og gaf lágan bolta fyrir og Ólafur Valur Valdimarsson renndi boltann laglega í eigið net, tvö mörk frá Ólafi og KA búið að minnka muninn.
KA-menn sýndu sínar réttu hliðar eftir þetta og áttu marga góða spretti en ekkert gekk, á 80. mínútu fengu KA-menn skyndisókn en dómari leiksins ákvað að stoppa leikinn eftir að Skagamaður lá í valnum og meiddi sig smá í löppinni, 2 mínútum síðar gerðist það sama hinum megin á vellinum, Dan Howell lá í valnum, Skagamenn geystust upp í skyndisókn og fengu horn, eftir að Leiknir stoppaði leikinn og lét hlú að Dan skoraði Hjörtur Hjartarsson annað mark sitt í þessum leik, með höfðinu, og leikurinn búinn og staðan 4-1. KA menn voru alveg brjálaðir með þessa ákvörðun Leiknis, sem eins og margar aðrar í þessum leik orkuðu mjög tvímælis.
Leiknum lauk því með sanngjörnum sigri Skagamanna 4-1 og það verður að segjast að þeir eru með langbesta liðið í deildinni og myndu örugglega vera ofarlega í úrvalsdeildinni með þann mannskap sem þeir hafa yfir að ráða í dag.
Myndir frá leiknum koma inn seinna í dag.