Erfiður sunnudagur hjá yngri flokkunum

5. flokks stelpurnar ásamt þjálfurum og foreldrum á Hlíðarenda að úrslitaleiknum loknum.
5. flokks stelpurnar ásamt þjálfurum og foreldrum á Hlíðarenda að úrslitaleiknum loknum.

Það verður ekki annað sagt en að gærdagurinn, sunnudagurinn 4. september, hafi verið heldur erfiður fyrir yngri flokka KA í fótbolta. Fjórir flokkar voru í eldlínunni í úrslitum Íslandsmótsins í fótbolta en allir leikir gærdagsins töpuðust.

Á Hlíðarenda máttu stelpurnar í 5. flokki kvenna A-liðum sætta sig við 0-2 tap gegn stöllum sínum í Val í úrslitaleik Íslandsmótsins. Valsstelpur mættu ákveðnari til leiks í fyrri hálfleik og uppskáru þá mark. Í síðari hálfleik kom nýtt KA-lið inn á og saumaði duglega að Val. Það dugði þó ekki til að skora mark, þótt oft hafi hurð skollið nærri hælum. Undir blálokin náðu Valsstelpur síðan að setja annað mark og úrslitin voru ráðin. Súr niðurstaða fyrir okkar stelpur, en þær geta þó borið höfuðið hátt, enda sumarið verið þeim einkar fengsælt og þær oft og tíðum spilað frábæran fótbolta.

Fjórði flokkur kvenna spilaði sinn þriðja og síðasta leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í gær og tapaði stórt fyrir FH - 2-8. Áður höfðu stelpurnar unnið Grindavík og tapað fyrir Breiðabliki.

Strákarnir í 4. flokki karla A-liðum töpuðu fyrir Breiðabliki á Akureyrarvelli með þremur mörkum gegn engu. Með jafntefli eða sigri hefðu strákarnir farið í úrslitaleik Íslandsmótsins, en það gekk sem sagt ekki eftir.

Strákarnir í 3. flokki A-liðum spiluðu í gær á Blönduósi við Þrótt Reykjavík um sigur í C-deild 3. flokks og sæti í úrslitakeppni 3. flokks karla, en töpuðu 1-4. B-lið 3. flokks tapaði sömuleiðis fyrir Þrótturum 2-4.

Þar með fer að sjá fyrir endann á vertíð yngri flokkanna í fótbolta á þessu sumri. Þó er henni ekki alveg lokið. Um næstu helgi fer B-lið 4. flokks karla suður í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn og mætir FH-ingum, Blikum og Þrótturum. Einnig á 3. flokkur karla eftir að mæta KF í úrslitum Valitor-bikarsins fyrir Norður- og Austurland og fer sá leikur fram á Akureyrarvelli. Dagsetning leiksins hefur ekki verið ákveðin.

2. flokkur karla á fjóra leiki eftir í Íslandsmótinu. Um næstu helgi fara strákarnir suður yfir heiðar og spila við Blika og Keflvíkinga og síðustu leikirnir verða síðan á Akureyrarvelli gegn Fjölni/Birninum og Þórsurum á Þórsvelli.

Meistaraflokkur karla á tvo leiki eftir - nk. laugardag gegn ÍA á Skaganum og síðasti leikurinn verður á Akureyrarvelli gegn BÍ/Bolungarvík þann 17. september.