0-1 tap gegn Þjóðverjum í dag

Þjóðverjar höfðu betur gegn okkar strákum í U-17 landsliðinu í Evrópumóti landsliða í Slóveníu í dag. Þjóðverjarnir skoruðu markið sem skildi liðin að á 20. mínútu leiksins. KA-mennirnir Fannar Hafsteinsson og Ævar Ingi Jóhannesson voru í byrjunarliðinu í dag - Ævari var skipt útaf rétt undir lok leiksins.  

Þjóðverjar voru mun meira með boltann í leiknum en gekk illa að finna glufur á þéttri vörn Íslands. Þó fengu Þjóðverjarnir mjög góð tækifæri til að bæta við mörkum, en Fannar í markinu og góðir tilburðir varnarmanna komu í veg fyrir fleiri mörk Þjóðverja. Íslendingar áttu ekki mörg færi, en tvö þeirra hefðu hæglega getað skilað jöfnunarmarki.

Þrátt fyrir þetta tap eygja Íslendingar þó ennþá möguleika með að komast í undanúrslitin. Þjóðverjar hafa þegar tryggt sér það sæti óháð því hvernig leikur þeirra við Frakka fer. Frakkar og Georgíumenn gerðu í dag jafntefli og því er staðan sú að Þjóðverjar eru með sex stig í efsta sæti, Frakkar eru með tvö, Íslendingar eitt og Georgíumenn eitt. Annað sæti í riðlinum gefur sæti í undanúrslitum og því eru möguleikar okkar fólgnir í því að vinna Georgíu og Þjóðverjar vinni eða geri jafntefli við Frakka. Þessir leikir verða spilaðir kl. 17.30 að íslenskum tíma nk. fimmtudag, 10. maí.