KA-mennirnir Fannar og Ævar Ingi í eldlínunni í jafnteflisleik gegn Dönum í kvöld

Fannar Hafsteinsson varði mark Íslands gegn Dönum í fyrsta leik U-17 landsliðsins í milliriðli Evrópumótsins í Skotlandi í kvöld. Leiknum lyktaði með jafntefli, 2-2. Ævari Inga Jóhannessyni var skipt inn á á 71. mínútu.

Daninn Marcus Mathiasen kom Dönum yfir á 42. mínútu en íslenska liðið jafnaði metin strax á þriðju mínútu síðari hálfleik. Markið skoraði Þróttarinn Daði Bergsson. Mathiasen var aftur á ferðinni fyrir Dani á 55. mínútu, en Íslendingar lögðu ekki árar í bát og jöfnuðu metin á 75. mínútu. Þar var á ferðinni varamaðurinn og Blikinn Gunnlaugur Birgisson. Þar við sat og niðurstaðan jafntefli.

Næsti leikur Íslands verður gegn Skotum á fimmtudaginn, en þeir sigruðu Litháa í kvöld með einu marki gegn engu. Þriðji og síðasti leikur íslensku piltanna verður gegn Litháen nk. sunnudag.