Það var ljóst frá fyrstu mínútu í dag að Íslendingar ætluðu sér sigur og ekkert annað. Strákarnir hófu leikinn með látum og strax á 15. mínútu skoraði Oliver Sigurjónsson fyrsta markið úr vítaspyrnu. Páll Þorsteinsson bætti síðan við öðru marki sex mínútum síðar og þannig var staðan í hálfleik. Í byrjun síðari hálfleiks kom Ævar Ingi inn á í stað Páls Þorsteinssonar.
Íslendingar héldu áfram að sauma að Litháum í seinni hálfleik og þriðja mark leiksins leit dagsins ljós þegar Daði Bergsson skoraði á 53. mínútu. Ekki vænkaðist hagur Litháa þegar leikmaður þeirra fékk sitt annað gula spjald á 56. mínútu og þar með kom hann ekki meira við sögu í leiknum. Íslendingar nýttu sér liðsmuninn og settu punktinn yfir i-ið með fjórða markinu á 69. mínútu. Markið skoraði Kristján Flóki Finnbogason. Stórsigur í höfn, sem tryggði Íslandi sigur í riðlinum og þar með farseðilinn í lokakeppni Evrópumótsins í Slóveníu 4. til 16. maí nk. (efsta liðið í hverjum milliriðlanna fer í lokakeppnina). Þar spila sjö lið auk gestgjafanna, Slóvena, um Evrópumeistaratitilinn í fótbolta undir 17 ára. Það er frábær árangur að Ísland skuli vera eitt þessara átta þjóða og undirstrikar styrkleika liðsins. Þarf þó ekki alveg að koma á óvart, því þetta lið tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn sl. sumar á Akureyri, þá skoraði okkar maður, Ævar Ingi Jóhannesson, einmitt úrslitamarkið. Þá var reyndar Fannar Hafsteinsson í marki B-liðs Íslands. Hann hefur hins vegar unnið sig upp í að vera fyrsti markmaður A-liðsins. Hann stóð í markinu í milliriðlinum í Ísrael sl. haust og varði markið aftur nú í öllum þremur leikjunum, fékk aðeins á sig tvö mörk, í fyrsta leiknum gegn Dönum. Hélt síðan hreinu í leiknum gegn Litháum í dag og Skotum sl. fimmtudag.
KA sendir okkar drengjum, landsliðsstrákunum öllum og þjálfarateymi innilegar hamingjuóskir með glæsilegan árangur og farseðilinn í lokakeppnina í Slóveníu.