Fjölskyldugleði í KA heimilinu á morgun - baráttan um Akureyri heldur áfram!

KA menn fagna sigrinum á Þór fyrr í sumar!
KA menn fagna sigrinum á Þór fyrr í sumar!
Á morgun er seinni helmingur í baráttunni um Akureyri en þá förum við KA menn í heimsókn í Þorpið og spilum okkar seinni leik gegn Þórsurum. Allir vita hvernig fyrri leikurinn fór, þar sem við unnum glæsilegan sigur einum manni færri. Strákarnir í liðinu ætla ekkert að gefa eftir í seinni leiknum og ætla að klára baráttuna um Akureyri með stæl. Það ætla stuðningsmenn KA einnig að gera en á morgun kl. 15 mun hefjast fjölskyldugleði í KA heimilinu þar sem öllum KA mönnum, ungum sem öldnum, verður boðið að koma og hrista sig saman fyrir leik.

Boðið verður upp á grillaðar pylsur og Frissa Fríska. Yngsta kynslóðin getur hlaupið um í KA heimilinu eða út á KA svæði og leikið sér á meðan þeir sem eldri eru geta farið yfir málin fyrir leikinn og jafnvel æft sig í því að klappa í takt. 

Einnig verður ÖLLUM boðið upp á andlitsmálningu og eru allir hvattir til að nýta sér það, ungir sem aldnir. Málningin er þess eðlis að auðvelt er að þvo hana úr andliti. Svo er náttúrlega um að gera að mæta í gulu!

Svo verður boðið upp á rútuferð yfir í Þorpið svo allir geti gengið saman fylktu liði inn á völlinn. Allt KA fólk er hvatt til þess að mæta á morgun, kl 15:00, í KA heimilið! Komum saman og eigum ánægjulega stund áður en við förum og hvetjum liðið okkar til sigurs! 



Áfram KA!