Frábær 1-3 útisigur á Leikni

KA-menn sigldu frábærum 1-3 útisigri í höfn gegn Leikni í Breiðholtinu í gær. Það er ár og dagur síðan KA hefur unnið Breiðhyltinga á þeirra heimavelli og því var sigurinn ákaflega sætur.

Í byrjunarliðinu voru Sandor í markinu, Jakob og Darren í bakvörðunum, Gunnar Valur og Haukur í hjarta varnarinnar, Túfa, Jóhann Helga og Brian á miðjunni, Guðmundur Óli og Bjarki á köntunum og Disztl fremstur.

Þrátt fyrir að skilaboð þjálfaranna til leikmanna væru alveg skýr - að mæta Leiknismönnum af krafti frá fyrstu sekúndu - dugði það ekki til. Leiknismenn pressuðu KA-menn framarlega og strax eftir um tíu mínútuna leik potuðu Leiknismenn inn fínu marki.

Við þetta vöknuðu KA-menn aðeins til lífsins og unnu sig smám saman inn í leikinn. Skyndisóknir KA voru eitraðar og sköpuðu hættu - einni þeirra munaði sentímetrum að Disztl næði að pota boltanum í netið og í sömu sókn átti Jóhann Helga skot í þverslá. Það var síðan samkvæmt gangi leiksins að stíflan brast og fyrirliðinn Gunnar Valur Gunnarsson skallaði botltann glæsilega í bláhornið eftir flotta sendingu frá Jóhanni Helga - 1-1 í hálfleik.

Skilaboð þjálfaranna í hálfleik voru þau að það vantaði karakterinn í KA-liðið, nú skyldu menn sýna hvað í þeim byggi! Og það var sem nákvæmlega gerðist, menn fóru virkilega að vinna hver fyrir annan og það dugði strax á 46. mínútu með flottu marki frá Jóhanni Helgasyni. Staðan orðin 1-2, en nóg eftir af hálfleiknum.

Eftir þetta áttu bæði lið ágætar sóknir - ákefð Leiknismanna í að jafna leikinn var mikil en þeir fengu þó aldrei nein opin færi. Minnstu munaði hins vegar að Bjarki Baldvinsson næði að setja mark þegar hann brunaði upp vinstri kantinn og skaut í utanverða stöngina. Þar sluppu Leiknismenn með skrekkinn.

Í síðari hálfleik leysti Elmar Dan Gunnar Val, sem fann fyrir eymslum í læri, af í vörninni, Ævar Ingi tók stöðu Bjarka á hægri kantinum, Hallgrímur kom inn á á vinstri kantinn fyrir Guðmund Óla, sem færði sig á miðjuna og Brian Gilmour fór útaf, en hann fékk slæmt högg í síðuna í bikarleiknum á móti Magna og fann því fyrir eymslum í leiknum.

Með mikilli vinnusemi héldu KA-menn áfram og Dávid Disztl, sem var KA-liðinu mjög mikilvægur í leiknum, hélt varnarmönnum Leiknis við efnið og átti í tvígang skórkostleg skot frá vinstri langt utan við vítateig, sem smullu í þverslánni. Í seinna skiptið hirti U-17 landsliðsmaðurinn Ævar Ingi Jóhannesson frákastið og sendi boltann í markið - 3-1 og sigurinn í höfn. Fyrsta mark Ævars Inga í deildarleik í mfl. KA og alveg örugglega ekki það síðasta. Strákurinn kom af miklum krafti inn í síðari hálfleikinn og lét Leiknismenn sannarlega hafa fyrir hlutunum.

Leiknismenn tóku miðju eftir mark Ævars en dómarinn flautaði leikinn strax af.

Gríðarlega kærkomin stig í hús eftir svekkjandi tap gegn ÍR í fyrstu umferðinni. Tveir útileikir að baki og næst er það fyrsti heimaleikur við Víking R, sem eru ósigraðir eftir fystu tvær umferðirnar. Sá leikur fer fram á Akureyrarvelli nk. föstudag kl. 18.30 og heitum við á alla stuðningsmenn KA, unga sem aldna að flykkjast nú á völlinn og öskra úr sér lungun í stuðningi við liðið. Með góðum stuðningi er allt hægt, það sýndi sig í Breiðholtinu í gær þar sem góður hópur dyggra stuðningsmanna lét vel í sér heyra á pöllunum.

Fjórir varamenn komu ekki við sögu í leiknum í gær; Þórður Arnar, Fannar, Kristján Freyr og Gunnar Örvar. Tveir leikmenn eru á meiðslalistanum;Ómar Friðriksson og Davíð Rúnar Bjarnason og Jón Heiðar Magnússon átti ekki heimangengt í Leiknisleikinn af persónulegum ástæðum.