Í áttunda flokki í sumar var mikið fjör og mikill fjöldi krakka lagði alúð við æfingar og er ástæða til þess að þakka krökkunum, foreldrum þeirra og þjálfurunum fyrir sumarið.
Í sjöunda flokki karla og kvenna var líka mikill kraftur og ánægjan skein úr andlitum krakkanna. Þessir flokkar stóðu sig með mikilli prýði á mótum sumarsins og komu heim með ófá verðlaunin.
Í sjötta flokki mátti sjá mikla og góða tilburði á knattspyrnuvellinum og framfarirnar voru greinilegar. Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni sigruðu bæði A-lið KA í drengjaflokki og stúlknaflokki svæðiskeppnina og eru því svæðismeistarar KSÍ á Norður- og Austurlandi. B-lið KA í 6. flokki drengja lenti í öðru sæti í úrslitakeppninni og B-lið KA lentu í öðru og þriðja sæti í úrslitakeppninni í stúlknaflokki.
Í 5. flokki karla sigraði A-lið KA sinn riðil. KA3 lenti í þriðja sæti í E2 riðli, B-liðið lenti í öðru sæti í sínum riðli og C-liðið í öðru sæti á markatölu. A- og B-lið KA keppa núna um helgina í úrslitakeppni Íslandsmótsins. A-liðið fer til Eskifjarðar og keppir þar við Víking R, KR og Fjarðabyggð/Leikni. B-liðið fer suður á Álftanes og keppir þar við Val, FH2 og KR.
Í 5. flokki kvenna sigraði A-lið KA sinn riðil með fádæma yfirburðum. Liðið tapaði ekki leik í sumar í Íslandsmótinu en gerði tvö jafntefli. Markatalan er 71-3. KA tefldi fram þremur B-liðum og lentu þau í þremur efstu sætum í sínum riðli. KA heldur um helgina á KA-vellinum úrslitakeppni 5. flokks kvenna í A- og B-liðum. Í A-liðum mætir KA Stjörnunni, Sindra og Víði. Í B-liðum mætir KA Stjörnunni, Þrótti R og Fjarðabyggð/Leikni.
Í 4. flokki karla í A-liðum sigraði KA sinn riðil með markatöluna 109-14. Í B-liðum sigraði KA sömuleiðis sinn riðil. KA keppir í úrslitakeppni A-liða 2.-4. september nk. en ekki hefur verið ákveðið hvar keppnin fer fram.
Í 4. flokki kvenna í A-liðum lenti KA í öðru sæti og hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppni. Þessi árangur stelpnanna er athyglisverður í því ljósi að bróðurpartur stelpnanna er á yngra ári. KA keppir í úrslitakeppni Úrslitakeppnin verður 2.-4. september nk., en staðsetning liggur ekki fyrir.
A-lið KA í 3. flokki karla sigraði sinn riðil í C-deild Íslandsmótsins. KA mætir síðan liði í öðru sæti í hinum riðlinum, sem er Fjarðabyggð/Leiknir í undanúrslitum C-deildar. Síðan spila sigurvegarar úr tveimur undanúrslitaleikjum í C-deild til úrslita og það lið sem sigrar þann leik vinnur sér sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins í 3. flokki. B-liðið er sem stendur í efsta sæti í sínum riðli en leikur við Gróttu á morgun, föstudag, sker úr um hvort liðið verður í efsta sæti þegar upp verður staðið og spilar aukaleik við efsta liðið í hinum riðlinum í C-deildinni um hvort liðið fer áfram í úrslitakeppni B-liða í 3. flokki.
Þriðji flokkur kvenna hefur átt erfitt uppdráttar í sumar, enda hópurinn fámennur og liðið hefur þurft að fá liðsinni stúlkna úr 4. flokki sem flestar eru þar á yngra ári. Liðið lýkur keppni í neðsta sæti í sínum riðli.