Elvar Páll Sigurðsson var hetja KA-manna og skoraði þrjú mörk.
KA-menn unnu mikinn karaktersigur á HK í gærdag eftir að hafa verið 3-1 undir í hálfleik. Umfjöllun um leikinn.
HK 3 - 4 KA
0-1 Elvar Páll Sigurðsson ('2)
1-1 Ásgeir Aron Ásgeirsson ('16)
2-1 Eyþór Helgi Birgisson ('18)
3-1 Fannar Freyr Gíslason ('30)
3-2 Andrés Vilhjálmsson ('60)
3-3 Elvar Páll Sigurðsson ('75)
3-4 Elvar Páll Sigurðsson ('84)
Gulli stillti upp sama liði og rúllaði yfir ÍR fyrir rúmri viku síðan á Akureyri.
Sandor
Haukur He - Hafþór - Boris - Jón Heiðar
Andrés - Guðmundur Óli - Davíð R - Hallgrímur
Elvar Páll
Dan Howell
Varamenn: Davíð Örn Atlason (Hallgrímur, 73. mín), Ómar Friðriksson (Elvar Páll, 86. mín), Steinn
Gunnarsson, Sigurjón Fannar Sigurðsson, Magnús Blöndal, Jakob Hafsteinsson (Jón Heiðar, 46. mín), Fannar Hafsteinsson.
Það var blíðskaparveður þegar flautað var til leiks á Kópavogsvellinum en fór reyndar að rigna þegar leið á leikinn.
KA-menn virtust ætla að halda uppteknum hætti frá leiknum við ÍR því strax þegar rúm ein og hálf mínúta
var liðin af leiknum átti Haukur Heiðar fyrirgjöf á kollinn á Elvari Pál sem átti ekki í erfiðleikum með að stýra knettinum
í netið, einn og óvaldaður á fjærstönginni. KA-menn komnir í 1-0.
Liðið byrjaði leikinn af miklum krafti, allir virkuðu mjög sprækir og hélt ég að þeir ætluðu nánast að gera út um
leikinn þegar fimmtán mínútur voru liðnar. Andrés Vilhjálms renndi þá boltanum inn fyrir á Guðmund Óla sem lék
á markvörð HK-inga og skaut boltanum í átt að tómu markinu en á síðustu stundu náði varnarmaður að renna sér fyrir
boltann og bjarga.
Við þetta virtust HK-ingarnir ranka við sér en KA-menn slaka á og leikurinn breyttist algjörlega - til hins verra. Grimmdin og baráttan sem var til staðar
í byrjun leiksins hvarf og Kópavogsliðið sótti í sig veðrið.
HK náði að jafna leikinn á 18. mínútu. Þeir fengu klaufalega aukaspyrnu sem var send inn á teiginn og þar var Ásgeir Aron
Ásgeirsson mættur og skallaði boltann yfir Sandor í markinu. Sandor var reyndar ekki langt frá því að ná að blaka boltanum yfir.
Tveimur mínútum síðar komust heimamenn síðan yfir. Eftir að þeir unnu boltann á miðjunni, komst Eyþór Helga Birgisson í
gegn, lék á Sandor og renndi boltanum í autt markið. Staðan skyndilega orðin 2-1.
Dan reyndar náði að klóra í bakkann skömmu síðar þegar hann komst fram fyrir varnarmann HK-inga, náði boltanum og skoraði en
dæmd var aukaspyrna á framherjann fyrir sakir sem virtust afar litlar úr stúkunni.
Á 30. mínútu skoruðu HK-ingarnir þriðja mark sitt. Eftir hornspyrnu var mikill darraðardans í teignum og KA-menn hentu sér fyrir tvö skot og
náðu að stöðva þau en boltinn barst til Fannars Freys Gíslasonar í markteignum sem náði að koma boltanum yfir línuna.
Staðan 3-1 í hálfleik og KA-menn algjörlega heillum horfnir eftir mjög lofandi byrjun í leiknum. Strákarnir gengu niðurlútir til
búningsherbergja á meðan HK-ingarnir virtust fullir af sjálfstrausti.
Gunnlaugur virðist hafa nýtt hálfleikinn vel til að fara yfir málin með sínum mönnum því KA-menn mættu töluvert sterkari inn
í síðari hálfleikinn. Gulli gerði einnig eina breytingu, Jakob kom inn í vinstri bakvörðinn fyrir Jón Heiðar.
KA náðu yfirhöndinni í leiknum sem samt sem áður var mjög opinn á báða bóga. Elvar Páll fékk tvisvar tækifæri
til að skora en skot hans í bæði skiptin ekki nægilega góð auk þess sem Dan fékk fínt færi en var alltof lengi að athafna sig
í teignum.
Á 60. mínútu fengu KA-menn aukaspyrnu úti á kanti. Boltinn var sendur inn í pakkann og datt síðan til Andrésar sem þrumaði
knettinum í netið á fjærstönginni og núna var ég aldrei í efa um að jöfnunarmarkið kæmi. Yfirbragðið á KA
liðinu var mun betra en í fyrri háfleiknum.
Bæði lið skiptust þó á að sækja næstu mínútur en eins og áður segir var leikurinn mjög opinn. Á 72.
mínútu fór Hallgrímur af velli og í hans stað kom Davíð Örn Atlason.
Þremur mínútum síðar kom jöfnunarmarkið. KA-menn áttu horn sem HK-ingar komu í burtu en ekki nægilega langt því Elvar
Páll kom aðvífandi og skoraði með þrumuskoti sitt annað mark í leiknum og jöfnunarmark KA.
Skömmu síðar skall hurð nærri hælum þegar Fannar Freyr sóknarmaður HK slapp einn í gegn en Sandor sá við honum. Í næstu
sókn átti Andrés flotta fyrirgjöf á Dan sem henti sér fram en engu munaði að hann næði að pota boltanum yfir línuna. Hinu megin
vallarins fengu HK-ingar líka dauðafæri en aftur var Sandor á tánum og varði geysilega vel. Bæði lið ætluðu sér greinilega að
fá öll þrjú stigin.
Sigurmarkið kom svo á 84. mínútu og það fór svo sannarlega í rétt mark. Dan hafði verið í baráttunni í teignum,
boltinn barst út á kant og þaðan kom fyrirgjöf frá Andrési á fjærstöngina þar sem enginn annar en Elvar Páll Sigurðsson
var mættur og stangaði boltann í netið. Þrennan fullkomnuð hjá Elvari sem er uppalinn í Breiðabliki og því líklegast ekki fundist
leiðinlegt að klára HK-ingana á Kópavogsvelli.
Leikurinn var þó ekki búinn því HK-ingar fengu eitt færi í viðbót en Sandor varði virkilega vel. Gulli lét síðan
Ómar Friðriks inn fyrir Elvar Pál í lokin til að fá fríska fætur inn.
Liðið náði að halda út og tryggja sigurinn. Mikill karaktersigur en eftir að hafa verið 3-1 undir í hálfleik og ná að koma til baka og
vinna 4-3 er mjög vel gert. Allir sem einn tóku sig saman í andlitinu í hálfleik og sýndu töluvert betri spilamennsku í seinni
hálfleiknum.
Þessi sigur ætti að gefa liðinu mikið sjálfstraust fyrir næsta leik sem er gegn Haukum á heimavelli en Haukar eru með sex stig eftir
þrjá leiki. KA-menn eru með sjö í öðru sæti.