Frábær sigur 2. flokks á Víkingi R

Aci og Kristján fagna hér saman marki Aci ©Jóhann Már
Aci og Kristján fagna hér saman marki Aci ©Jóhann Már
2. flokkur kk lék í gær við Víking R. að viðstöddum örfáum hræðum á Akureyrarvelli. Víkingar voru í öðru sæti deildarinnar fyrir leikinn og unnu þeir fyrri leik liðanna 5-2, en þeir sáu aldrei til sólar í leiknum og var gamli KA-maðurinn Davíð Örn Atlason, sem var á láni hjá KA fyrripart sumars frá Víkingi, þeirra langbesti maður.

Í fyrri hálfleik fengu KA-menn þrjú dauðafæri án þess að takast að skora og voru í raun mjög óheppnir að raða ekki inn mörkum. Mikil bleyta var á vellinum og urðu nokkur návígi því mjög áhugaverð.

Í seinni hálfleik gerðust hlutirnir, hann var ekki nema 5 mínútna gamall þegar Gunnar Örvar skoraði af stuttu færi eftir laglega sendingu frá Kristjáni Frey og þetta gaf strákunum byr undir báða vængi. 

KA-menn áttu nokkra ágætis spilkafla í leiknum en það fjaraði aðeins undan þeim þegar á leikinn leið enda völlurinn þungur og erfiður. Það var hins vegar serbneski undrafolinn Aksentije Milisic sem skoraði annað mark KA á 74. mínútu af stuttu færi og aftur var það eftir laglegan undirbúning Kristjáns Freys.

Það var svo á 88. mínútu sem Jóhann Örn kláraði leikinn endanlega og fullkomnaði niðurlægingu Víkinga þegar misheppnuð fyrirgjöf hans af kantinum sveif yfir markvörð Víkinga og í netið og enn var það Kristján Freyr sem átti stoðsendinguna.

Þar við sat, frábær sigur 2. flokks og siglir hann nokkuð lygnan sjó í 6. sæti deildarinnar með 18 stig, 9 stigum frá fallsæti.