Frábær sigur hjá 3. flokki kvenna

3. flokkur KA spilaði við Völsung í gær í bikarkeppninni og vann góðan 6-1 sigur. Leikurinn var jafn fram að fyrsta marki KA en það kveikti trúna hjá stelpunum og létu þær heldur betur kné fylgja kviði fram að hálfleik. Staðan var 0-0 eftir 20 mínútur en 4-0 í hálfleik.

 

Völsungur fékk einu færin á upphafsmínútunum en Helena bjargaði í tvígang með góðu úthlaupi. Það var svo Dana Rún Magnúsdóttir, Ólafsfirðingurinn í liði KA sem skoraði fyrsta markið eftir laglegt spil. Framherjinn nýuppgötvaði, Ágústa bætti svo við marki eftir flotta sendingu frá Guðrúnu. Næsta mark kom svo úr óvæntri átt þegar bakvörðurinn sem aldrei skorar skoraði. Þá hafði KA átt mikla og flotta sókn sem endaði með skoti frá Dönu. Boltinn var á leiðinni framhjá markinu en þá kom Katla á fullu gasi og sneiddi hann í netið. Lára skoraði svo síðasta markið fyrir hlé úr aukaspyrnu af u.þ.b. 35 metra færi.

KA hélt uppi góðri pressu í upphafi seinni hálfleiks og bættust þá tvö mörk í sarpinn. Hið fyrra skoraði Ágústa eftir góða sendingu af vinstri kantinum. Hún var svo nærri sloppin í gegn skömmu síðar en var stöðvuð við vítateiginn og aukaspyrna dæmd. Lára setti boltann upp í vinkilinn með lausu en hnitmiðuðu skoti og kom KA í 6-0. Völsungur svaraði um hæl og seinni hluta síðari hálfleiks gerðist fátt markvert. Lokatölur 6-1 og næsti andstæðingur KA í keppninni verður Fjarðarbyggð eða Höttur.