Sigfús með stúkuna á nýja vellinum í baksýn. Mynd: Palli Jóh.
Leikur KA og Gróttu nk. föstudag mun fara fram á hinum nýja og glæsilega Þórsvelli þar sem grasið á Akureyrarvellinum er ekki
tilbúið í slaginn. Þórsvöllurinn er með hitunarkerfi undir grasinu og því mun sneggri að ná sér eftir veturinn. Heyrst hefur
að ekki séu allir sáttir með þessa lendingu á málinu, þ.e. að KA spili á Þórsvellinum og því heyrði
heimasíðan í Sigfúsi Helgasyni, framkvæmdastjóra Þórs og fékk hann til að segja frá aðstæðum.
Áður fyrr þegar Akureyrarvöllur var ekki klár í byrjun móts þá voru leikir færðir í Bogann, en síðasta sumar var
nýi völlurinn við Hamar tilbúinn með glæsilegri stúku eftir miklar framkvæmdir og léku Þórsarar hluta af sínum heimaleikjum
á þessum velli í fyrra. Margir bjuggust því að þar sem KA-menn þyrftu að leika fyrsta leik í Boganum ef Akureyrarvöllur væri
ekki til en hvernig kom þetta til?
,,Það kom erindi frá KA þess efnis og framkvæmdastjórn Þórs tók það fyrir og það var
algjör einhugur í stjórn Þórs að verða við þessari beiðni. Við Þórsarar búum svo vel nú um stundir að
völlurinn okkar er tilbúinn og svo hitt að í ljósi þess að samstarf þessara félaga hefur sennilega aldrei verið eins mikið og gott
í sögu þeirra en nú um stundir var það ekki erfitt að verða við þessari beiðni," sagði Sigfús.
,,Eins vil ég geta þess að sú mikla framkvæmd sem hér var og kostuð var af bæjarbúum þá kannski
má segja að við vildum sýna að við metum þetta framlag Akureyrarbæjar og ég veit að þessari ákvörðun okkar hefur verið
vel tekið hjá bæjaryfirvöldum."
Eins og sjá má á myndunum hér að neðan er gríðarlega mikill munur á grasi vallanna tveggja þegar þeir eru bornir saman. Munurinn
liggur bæði í því að Þórsvöllurinn er glænýr með hitunarkerfi ásamt því að hluti af Akureyrarvelli var
tekinn upp í haust.
,,Völlurinn er að ég tel í frábæru standi og glæsilegur á yfir að líta.
Vallarstjórarnir okkar hér hafa farið með völlinn dúnmjúkum höndum og verkin sýna merkin."
Á vorin liggur eðlilega nokkur snjór yfir grasvöllum bæjarins og í apríl mokuðu KA-menn meira að segja snjó af Nývangi á
æfingasvæðinu en Þórsarar hafa haft hitunarkerfið í gangi í meira en mánuð á vellinum sem hjálpar grasinu gríðarlega
mikið.
,,Hitakerfið skiptir algjörlega sköpum í að völlurinn er tilbúinn svo snemma sem raun ber vitni. Við settum
kerfið í gang föstudaginn 9. apríl og það hefur allt virkað eins og til stóð."
,,Já völlurinn hefur verið lagfærður og hefur fengið úttektarvottun frá KSÍ. Er semsagt löglegur og í
fullri stærð,"sagði Sigfús en fram kom í fjölmiðlum að völlurinn væri ólöglega lítill á dögunum og segir
Sigfús að búið sé að ganga frá því máli.
Það hefur eðlilega oft verið mikill rígur á milli þessara félaga hérna í bænum og því gæti mörgum
þótt það skrýtið að sjá KA-menn í sínum gulu og bláu búningum hlaupa um Þórsvöllinn þar sem meira
að segja stúkan er hvít og rauð í litum Þórsara.
,,Nei veistu það verður ekkert skrýtið að
fá KA-menn á Þórsvöll. Ég hef fengið KA-menn í Bogann í mörg ár og það samstarf hefur gengið mjög vel og fyrir
það vil ég þakka og ég held ða það verði ekkert skrýtið að sjá Dínó og strákana hlaupa út á
Þórsvöll á föstudaginn."
Heyrst hefur að það gæti einhverrar óánægju meðal Þórsara með þessa ákvörðun framkvæmdastjórnar
Þórs að leyfa KA-mönnum að spila á glænýjum Þórsvellinum en Sigfús hefur engar áhyggjur af því.
,,Jú einhverjir hafa verið að lýsa sinni skoðun á þessari ákvörðun okkar en er það ekki eins og með allt
í þessu lífi. Við verðum seint sammála um alla hluti. Hver og einn má hafa skoðun á þessu máli."
,,Ég hélt reyndar í fávisku minni að þessi hugsun um að KA væri andstæðingur okkar í einu og
öllu væri að baki. Fyrir mér eruð þið KA-menn vinir okkar og félagar og á stundum vinnum við mjög þétt saman að
málum sem snúa að bæði Þór og KA. Við erum í samstarfi á morgun sviðum í handbolta og fótbolta og ég get ekki
með nokkru móti tekið undir þær gagnrýnisraddir sem ég hef heyrt um þessa ákvörðun. Þvert á móti er ég
stoltur af henni."
Þór lék sinn fyrsta leik á tímabilinu gegn Fjölni á umræddum velli og endaði leiknum með jafntefli á meðan KA-menn
nældu í þrjú stig fyrir sunnan gegn Þrótti. Tímabilið hjá stelpunum í Þór/KA hefst síðan á fimmtudaginn
þegar þær leika gegn Grindavík á útivelli.
,,Mér líst vel á sumarið. Mínir menn hafa verið
að gera það gott í vor og ég hef trú á að við stígum fram og vonandi förum alla leið. Þjálfararnir okkar eru að
mínu mati að gera rétt þótt ég hafi að sjálfsögðu ekkert vit á fótbolta. Hvað KA-menn varðar þá
sýnist mér Dínó og Steini vera að koma úr híðum sýnum og það má enginn vanmeta KA-menn í sumar. Svo vil ég
líka nefna Þór/KA, stelpurnar okkar allra. Ég hef fulla trú á að við munum gera alvarlega atlögu að titlinum í sumar. Semsagt
ég held að fótboltasumarið 2010 verði bara skemmtilegt."
,,Ég býð síðan alla KA-menn sérstaklega velkomna á Þórsvöll á föstudaginn kl.
18.00,"sagði Sigfús að lokum og þökkum við honum kærlega fyrir þetta.
Hér að neðan má sjá myndir sem teknar eru í hádeginu í dag(11. maí) sem sýna ástand vallanna nokkuð vel.