Almarr Ormarsson genginn til liðs við Fram (Staðfest)

Almarr Ormarsson, leikmaður meistaraflokks KA, er genginn til liðs við úrvalsdeildarlið Fram og er hann búinn að skrifa undir tveggja og hálfs árs samning. Almarr spilaði því sinn síðasta leik með KA gegn Víkingi R. á Akureyrarvelli í gærkvöldi og verður hann löglegur sem leikmaður Fram þegar Framarar sækja HK-menn í Kópavogi heim þann 28. júlí nk.

Almarr er uppalinn í KA og hefur hann aldrei spilað með öðru félagi hér á landi. Á þessu keppnistímabili hefur hann verið fyrirliði liðsins. Almarr á að baki ellefu landsleiki með U19 ára landsliði Íslands.

Almarr var samningsbundinn KA til loka þessa keppnistímabils, en Fram gerði tilboð í hann sem stjórn knattspyrnudeildar KA samþykkti að lokum.

Gunnar Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar KA, segir að á undanförnum vikum hafi Fram sótt stíft að því að fá Almarr til liðs við félagið og gert nokkur tilboð í hann sem öllum hafi verið hafnað. „Nýjasta tilboð Fram var hins vegar þess eðlis að við töldum rétt að ganga að því og um það ríkir góð sátt allra hlutaðeigandi. Ég neita því hins vegar ekki að það er ekki óskastaða að missa svo gegnheilan KA-mann og jafnframt fyrirliða liðsins þegar deildin er rétt hálfnuð, en að öllu samanlögðu töldum við rétt að stíga þetta skref nú."

,,Framlag Almars til KA hefur verið mikið og gott í gegnum tíðina og vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka honum af heilum hug fyrir það. Almarr hefur verið góð fyrirmynd innan sem utan vallar. Við óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi í knattspyrnunni,“ segir Gunnar.

Almarr er tvítugur að aldri. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri sl. vor og hyggst hefja nám í Háskóla Íslands í haust.