Fyrsti heimaleikur í kvöld - KA í úrvalsdeild í umgjörð

Hluti þeirra sem munu kalla áfram KA í sumar! Glæsilegur hópur! Jesús minn!
Hluti þeirra sem munu kalla áfram KA í sumar! Glæsilegur hópur! Jesús minn!
Fyrsti heimaleikurinn okkar er í kvöld og þar sem menn vöknuðu upp við hvíta jörð í morgun verður hann leikinn inni í "hlýja" Boganum. Tekin var sú ákvörðun á vördögum að reyna eftir fremsta megni að skapa flotta umgjörð í kringum heimaleiki KA og ætlum við svo sannarlega að vera í úrvalsdeild í þeim efnum.

Meðal þess sem nýtt verður í leikjum í sumar er "Sláarskot Flugskóla Akureyrar". Ólafur Arnar, framkvæmdastjóri sláarskota, gaf sér tíma til að segja aðeins frá því: „Sláarskotið er orðið þekkt stærð í knattspyrnuheiminum og hefur það m.a. verið tekið upp í hálfleik í heimaleikjum íslenska landsliðsins. Við prófuðum þetta í fyrrasumar með ágætum árangri í samstarfi við Flugskóla Akureyrar. Nú hefur sá samningur verið endurnýjaður og munum við bjóða áhorfendum að spreyta sig á öllum heimaleikjum í sumar,“ segir Ólafur. „Við munum bjóða tveimur áhorfendum að spreyta sig í hverjum leik; einum af yngri kynslóðinni og öðrum fullorðnum. Hinir eldri munu sem sagt fá tækifæri til að hitta þverslána frá vítateigsboga og hinir yngri frá vítapunkti.“ Verðlaunin verða ekki af verri endanum: Ef áhorfanda tekst að hitta þverslána fær hann flugferð með Flugskóla Akureyrar þar sem hægt verður að velja á milli útsýnisflugs eða listflugs, það er því til mikils að vinna.“ Það er því um að gera að fylgjast vel með í hálfleik!

Stuðningsmannaklúbbur KA, sem ekki hefur hlotið nafn enn, mun svo stjórna stúkunni með styrkri hendi, en þeir leysa Vini Sagga af hólmi. Vinir Sagga stóðu sig gríðarlega vel í stuðningi við KA en forsprakkar þess hóps eru flestir fluttir úr bænum fagra og því varð að koma nýju batteríi af stað. Vinum Sagga eru færðar þakkir fyrir þeirra framlag, en það má segja að þeir hafi verið frumkvöðlar í stuðningsklúbbamenningu hér á Íslandi á sínum tíma. Þó munu vonandi eftirlifandi Saggar hér í bæ vera með í sumar. Það eru strákar í 3. flokki KA sem mynda kjarnan í þessum nýja stuðningsmannaklúbbi. NOVA styrkti klúbbinn um kaup á bolum og verða því strákarnir alveg hel-gulir í stúkunni eins og sést á meðfylgjandi mynd. Ef einhver frjór KA maður er að lesa þetta núna, má hann endilega leggja til nafn, annaðhvort í kommentakerfinu hér að neðan á mailto:%20siggi@ka-sport.is.

Svo náttúrlega rúsínan in the hot-dog end, en eins og hefur komið fram hér á síðunni verður valinn maður leiksins í lok hvers leiks. Hann verður leystur út með glæsilegum gjöfum frá Strikinu og Nivea.

Það verður ekki bara sláarskot sem verður til skemmtunar á leikjum í sumar, því einnig mun það koma fyrir  að þekktir tónlistarmenn heiðri KA með nærveru sinni fyrir leik eða í hálfleik. Nú þegar hafa verið gerð drög að nokkrum heimsóknum.

Það verður stemning á KA-leikjum í sumar - liðið er ferskt og umgjörðin flott. Nú eigum við KA-menn, allir sem einn að mæta á völlinn! Hrópa áfram KA með strákunum í stuðningsklúbbi KA og skemmta sér!

Ávallt, áfram KA!