KA tapaði fyrsta leik sínum í 2. fl. kk. B-deild Íslandsmótsins í Boganum í dag. Andstæðingarnir voru Þróttur/SR og sóttu gestirnir 1-0 sigur. Markið kom úr víti á átjándu mínútu, sem var dæmt á hendi varnarmanns KA. Heilt yfir var KA sterkari aðilinn í leiknum, en gekk illa að skapa sér góð marktækifæri.
KA átti þó hörkuskot í þverslá í upphafi síðari hálfleiks og þá var Ívar Sigurbjörnsson, bakvörður í KA-liðinu, klipptur niður í teignum og að mati margra viðstaddra verðskuldaði brotið víti. Það taldi dómarinn hins vegar ekki og þar við sat.
KA-liðið sem var teflt fram í dag var mjög ungt. Þrír í byrjunarliðinu voru úr þriðja flokki, sex á yngsta ári, einn á miðári og einn á elsta ári í öðrum flokki.