Gamla myndin: Gulli í baráttu við Guðmund Óla

Gunnlaugur Jónsson og Guðmundur Óli í baráttunni árið 2009.
Gunnlaugur Jónsson og Guðmundur Óli í baráttunni árið 2009.

Gamla myndin að þessu sinni er tveggja ára gömul - Sævar hirðljósmyndari tók þessa mynd á Akureyrarvelli þann 18. júlí 2009 af Gunnlaugi Jónssyni, núverandi þjálfara KA en þáverandi þjálfara og miðverði Selfyssinga og Guðmundi Óla Steingrímssyni, þáverandi og núverandi leikmanni KA, að kljást um boltann. Selfyssingar sóttu ekki gull í greipar KA-manna í þessum leik því heimamenn sigruðu 2-0 með mörkum Bjarna Pálmasonar og Dávid Disztl. Selfyssingar fóru hins vegar rakleiðis upp sumarið 2009, en féllu aftur í fyrra. Eins og útlitið er núna stefna Selfyssingar aftur upp í ár og þeir færðust nær því takmarki með sigri KA í gær á Haukum.

KA á eftir að taka á móti Selfyssingum í sumar - sá leikur verður á Akureyrarvelli annan föstudag - 19. ágúst kl. 18.15. Er ekki gráupplagt að endurtaka leikinn frá 18. júlí 2009 og leggja Selfyssinga að velli?