Samningurinn tekur til uppbyggingar og endurbóta á félags- og knattspyrnuaðstöðu KA, afnota félagsins af Akureyrarvelli ásamt framtíðar íþróttasvæði í Naustahverfi.
Það er ljóst að framkvæmdir við gervigrasvöllinn á KA-svæðinu þurfa að ganga hratt og vel fyrir sig því völlurinn skal samkvæmt samningnum vera tílbúinn eigi síðar en í maí á næsta ári. Undirbúningur að gerð vallarins sem og skipulagsferli hefur staðið yfir undanfarna mánuði og sú vinna er á góðu róli. Við það er miðað að jarðvegsvinna hefjist um áramót og því verði heildar framkvæmdatími ekki lengri en 4-5 mánuðir.
Gert er ráð fyrir, eins og segir í samningnum, fullbúnum gervigrasvelli með hitalögnum og flóðlýsingu ásamt búnaði sem til þarf. Tæki til umhirðu og reksturs vallarins verði samnýtt með Boganum. Þá verða reistar nýjar girðingar kringum vallarsvæðið. Einnig verður gerður nýr pallur sunnan KA-heimilisins og íþróttahússins.
Varðandi framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja í Naustahverfi kemur fram í samningnum að æfingasvæði fyrir KA verði skilgreint þar við fyrirhugaða íþróttamiðstöð hverfisins.
Í viðaukasamningi með umræddum uppbyggingar- og framkvæmdasamningi kemur fram að samningur KA og Akureyrarbæjar um umsjón og rekstur Akureyrarvallar er nú framlengdur til ársloka 2024 og því ljóst að Akureyrarvöllur verður heimavöllur KA næstu tólf árin, í það minnsta. Í uppbyggingar- og framkvæmdasamningnum kemur fram að ef Akureyrarbær ákveði þegar þar að kemur að KA fái ekki framlengdan samning um Akureyrarvöll sé það vilji bæjarins að hefja samningaviðræður við KA um uppbyggingu á löglegum keppnisvelli samkvæmt leyfiskerfi KSÍ á íþróttasvæði KA.