Góður bikarsigur á Magna

Guðmundur Óli í baráttunni við Hjört Geir Heimisson, markvörð Magna, í fyrri hálfleiknum. Mynd: Sæva…
Guðmundur Óli í baráttunni við Hjört Geir Heimisson, markvörð Magna, í fyrri hálfleiknum. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson.
KA-menn voru á skotskónum í Boganum í kvöld þar sem þeir mættu nágrönnum okkar í Magna á Grenivík. Þegar upp var staðið höfðu KA-menn skorað sjö mörk gegn engu.

Byrjunarlið KA var þannig skipað að í markinu var Sandor Matus, Kristján Freyr Óðinsson var í hægri bakverði og Darren Lough í þeim vinstri. Miðverðir voru Haukur Hinriksson og Gunnar Valur Gunnarsson, sem jafnframt var fyrirliði í kvöld. Á miðjunni byrjuðu Brian Gilmour, Þórður Arnar Þórðarson og Guðmundur Óli Steingrímsson, Hallgrímur Mar Steingrímsson var á vinstri kanti og Bjarki Baldvinsson á þeim hægri og fremstur var Dávid Disztl, sem klæddist nú KA-treyjunni á nýjan leik.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu leiksins í Boganum í kvöld að KA-menn ætluðu sér að kvitta fyrir tapið í fyrstu umferð 1. deildar gegn ÍR. Strákarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á þriðju mínútu kom fyrsta færið. Dávid Disztl nikkaði boltanum laglega hægra megin í vítateignum á fjarstöng þar sem Bjarki var mættur og átti ekki í vandræðum með að setja boltann í netið - 1-0.

Á tíundu mínútu kom hár bolti fyrir markið og þar stökk Dávid Disztl hæst allra og skallaði boltann glæsilega í netið - 2-0.

Áfram hélt sókn KA-manna og á 25. mínútu skall hurð nærri hælum við mark Magna í tvígang. Í annað skiptið komst Brian Gilmour í fínt færi en skaut rétt yfir.

Á 39. mínútu var síðan dæmt víti á Magna. Hjörtur Geir markmaður Magna fór þá út á móti Guðmundi Óla, sem féll í teignum. Dómarinn var ekki viss í sinni sök, en línuvörðurinn, sem var ágætlega staðsettur, var handviss, víti skyldi það vera. Brian fór á vítapunktinn og skoraði örugglega - 3-0. Þar við sat og KA-menn fóru með góða forystu inn í klefa í hálfleiksmessu.

Í síðari hálfleik héldu KA-menn uppteknum hætti. Boltinn var rétt byrjaður að rúlla í hálfleiknum þegar Bjarki Baldvinsson prjónaði sig í gegn og átti gott skot í slána.

Eftir þetta bar fátt til tíðinda næstu tuttugu mínúturnar. Magnamenn komust eilítið meira inn í leikinn, án þess þó að skapa sér afgerandi færi.

Markaveislan hélt hins vegar áfram af hálfu KA þegar líða tók á síðari hálfleik. Á 67. mínútu sneiddi Dávid Disztl boltann laglega frá vinstri fyrir fæturnar á Brian sem lyfti boltanum snyrtilega upp í bláhornið. Snaggaralega gert af beggja hálfu - 4-0.

Á 74. mínútu tók Brian horn frá hægri. Fín hornspyrna sem Þórður Arnar nýtti sér til hins ítrasta með því að kasta sér fram og skalla boltann glæsilega í netið. Atli þjálfari, sem kom í Magnamarkið í hálfleik, átti ekki nokkra möguleika á að verja skotið. Vel gert hjá Þórði Arnari, ekki á hverjum degi sem hann skorar mark, enda miklu algengara að hann sé í því að verja markið aftarlega á vellinum en að láta til sín taka í sókninni - 5-0.

Upp úr miðjum síðari hálfleik kom Túfa inn á fyrir Gunnar Val og þá tók Þórður Arnar markaskorai við fyrirliðabandinu. Einnig kom Jóhann Helgason inn fyrir Brian Gilmour. Með Jóhanni kom nýtt líf í sóknina, hann átti hverja gullsendinguna af annarri á félaga sína og splundraði vörn Magna hvað eftir annað. Gunnari Örvari Stefánssyni var sömuleiðis skipt inn á fyrir Dávid Disztl  þegar um 7 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Gunnar Örvar lét strax til sín taka og var óheppinn að skora ekki mark - en boltinn hrökk í þverslána. Hallgrímur Mar komst skömmu síðar í mjög gott færi, en Atli markvörður gerði vel og varði.

Á 88. mínútu prjónaði Bjarki sig glæsilega í gegnum Magnavörnina vinstra megin og átti þrumuskot, en Atli gerði vel og hafði hendur á boltanum, en missti hann frá sér.  Þórður Arnar fylgdi vel eftir og setti sitt annað mark í leiknum - 6-0.

Á 90. mínútu pressuðu KA-menn Magnamenn framarlega og skyndilega hafði Guðmundi Óla tekist að prjóna sig í gegnum vörnina og hann átti ekki í erfiðileikum með að setja boltann framhjá Atla - 7-0.

Strákarnir voru ekki hættir því að á 91. mínútu átti Hallgrímur Mar gott skot í stöng og mínútu síðar átti Gunnar Örvar þrumuskot sem Atli varði vel í horn. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og 7-0 sigur á Magna í höfn.

Það verður að hrósa KA-liðinu fyrir að missa aldrei niður dampinn í leiknum. Allir leikmenn liðsins unnu vel hver fyrir annan og oft og tíðum sáust fínir taktar í liðinu. Frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu var liðið á fullu og aldrei var slakað á klóni, sem er mjög jákvætt. Nýjustu liðsmennirnir - Darren Lough í vinstri bakverði og Dávid Disztl sem fremsti maður - falla vel inn í liðið og er ljóst að þeir eiga bara eftir að verða betri þegar þeir hafa aðlagast því betur. Disztl átti tvær flottar stoðsendingar sem gáfu mörk og skoraði eitt mark. Hann er greinilega í fínu formi og enginn vafi er á því að hann á eftir að nýtast KA-liðinu vel.

Tveir leikmenn, sem voru á bekknum, komu ekki við sögu í leiknum; bræðurnir Jakob og Fannar Hafsteinssynir. Ævar Ingi Jóhannesson, Jón Heiðar Magnússon og Elmar Dan Sigþórsson hvíldu í kvöld og Ómar Friðriksson og Davíð Rúnar Bjarnason eru meiddir.

Mörk KA í kvöld:

Brian Gilmour 2
Þórður Arnar Þórðarson 2
Guðmundur Óli Steingrímsson
Bjarki Baldvinsson
Dávid Disztl

Næsti leikur KA verður gegn Leikni á útivelli nk. laugardag. Víst er þar mætast stálin stinn því bæði lið töpuðu í fyrstu umferðinni - KA gegn ÍR og Leiknir gegn Þór.

En áður en að leiknum í Breiðholtinu kemur verður dregið í 32ja liða úrslit Valitor-bikarsins í hádeginu nk. föstudag. Spennandi verður að sjá hvaða andstæðing KA fær.