Það var greinilegt að KA-menn ætluðu ekki að sýna Ólsurum neina gestrisni. Strax á fjórðu mínútu splundruðu þeir vörn gestanna og Haukur Heiðar fyrirliði setti boltann örugglega í markið. Áfram héldu okkar menn og uppskáru annað mark á átjándu mínútu og aftur var Haukar Heiðar á ferðinni, en hann var í byrjunarliðinu í dag í stöðu framliggjandi miðjumanns. Haukur Heiðar varð síðan fyrir meiðslum á ökkla á 24 mínútu og var borinn af leikvelli. Hann fór síðan til skoðunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og leiddi hún í ljós slæma tognun.
KA leiddi í hálfleik 2-0. Daniel Jason Howell bætti síðan við þriðja markinu á 59. mínútu en tveimur mínútum síðar minnkuðu Ólsarar muninn í 3-1. Þegar hér var komið sögu gáfu okkar menn eilítið eftir og Ólsarar urðu ágengari við nyrðra markið. Það bar síðan árangur á 75. mínútu þegar gestirnir minnkuðu muninn í 3-2. Víkingar fengu síðan dæmt á sig víti fimm mínútum síðar eftir glórulaust brot markvarðar og fyrirliða Víkings á Dan Howell. Ólsarar mótmæltu sem óðir væru, en allt kom fyrir ekki. Hallgrímur Mar fór á punktinn og skoraði örugglega. Með þessu víti bætti hann fyrir vítið sem Brian Gilmour hafði áður misnotað í síðari hálfleiknum eftir að Guðmundi Óla hafði verið skellt í teignum. Markmaður Ólsararanna gerði þá vel og náði að blaka boltanum í þverslána.
Á 85. mínútu var síðan dæmt víti á KA, þegar dómarinn mat það svo að Túfa hafi fellt einn af Víkingunum. Þetta víti var meira en lítið umdeilanlegt, en sem fyrr þýddi ekki að deila við dómarann og Ólsarar minnkuðu muninn í 4-3. Lengra komust þeir hins vegar ekki og góðum og sanngjörnum sigri, þegar á heildina er litið, var siglt í höfn.
Þegar tveimur leikjum er ólokið er KA með 26 stig í 7. sæti deildarinnar, jafnmörg stig og Þróttur Reykjavík en með betra markahlutfall. Tvö stig eru í Ólafsvíkurvíkinga. KA fer nk. laugardag í sinn síðasta útileik á Skagann og heimsækir þar nýbakað úrvalsdeildarlið og sigurvegarana í 1. deildinni þetta árið, en Skagamenn sigruðu deildina í dag með sigri á Gróttumönnum.